Raunkostnaður sundferðar er 1.084 kr. – Verð var hækkað í 900 kr.
Kostnaður sundlauga Reykjavíkur á hverja sundferð er hærri en verð stakrar ferðar, þó það hafi hækkað í 900 krónur.
Tekjur af sundlaugum Reykjavíkurborgar námu 40 prósentum af rekstrarkostnaði þeirra á síðasta ári. Tekjurnar námu 780 milljónum króna, en rekstrarkostnaðurinn um 1.959 milljónum. Mismunurinn var 1.180 milljónir króna. Það jafngildir um 2 prósentum af skatttekjum borgarinnar í fyrra.
Kostnaður sundlauga Reykjavíkur á hvern sundgest var 1.084 krónur að meðaltali, en kostnaðurinn er mjög mismikill milli lauga. Þannig var rekstrarkostnaður á hvern sundgest í Vesturbæjarlaug aðeins 724 krónur. Kostnaðurinn var 1.127 krónur á sundgest í Laugardalslaug, en hæstur var kostnaðurinn í Grafarvogslaug, eða 1.309 krónur á sundgest.
Hlutdeild sundgesta í kostnaði var einnig mismikill hjá laugunum. Gestir Árbæjarlaugar greiddu rétt um þriðjung af rekstrarkostnaði laugarinnar í fyrra. Hlutdeild sundgesta í kostnaði var hins vegar um 60% í Vesturbæjarlaug. Það er eina sundlaugin í Reykjavík þar sem tekjur námu yfir helmingi útgjalda á síðasta ári.