Orkuþörf jarðarbúa – Mun aukast um fjórðung næstu 25 árin
Aukningin verður mest á Indlandi, í Kína, Afríku, Austurlöndum nær og Suðaustur-Asíu, þar sem iðnaður og tæknivæðing almennings er í hvað örustum vexti. Reiknað er með að samdráttur verði í orkunotkun Vesturlanda og Japans á sama tíma. Spáð er 15% minni orkunotkun í Evrópusambandinu, 12% samdrætti í Japan og 3% minni orkuþörf í Bandaríkjunum.Þetta er aðallega rekið til batnandi orkunýtingar, orkusparnaðaraðgerða og breytinga á byggðamynstri.
Búist er við að aðrir orkugjafar en jarðolíuafurðir sjái Jarðarbúum fyrir 25% allrar orku árið 2040, en hlutfall þeirra er 19% nú. Þetta segir Alþjóða orkumálastofnunin skýra vísbendingu um að aukinn hagvöxtur og iðnvæðing heims þurfi ekki sjálfkrafa að leiða til aukinnar losunar koltvísýrings. Fyrirheit iðnríkjanna í aðdraganda loftslagsráðstefnunnar í París ýti undir þróun og notkun á nýrri, skilvirkari og kolefnis-óháðari tækni, en breyti þó engu um það, að heildarorkuþörf heimsins fari vaxandi.
Jarðgas er eina jarðefnaeldsneytið, hvers notkun mun aukast næsta aldarfjórðunginn, og það mun aðallega gerast á kostnað annars og meira mengandi jarðefnaeldsneytis. Spáð er hækkandi olíuverði á næstu árum.
Sögð eru augljós teikn á lofti um bráðnauðsynlega kúvendingu í orkumálum heimsins í fyrirsjáanlegri framtíð, en enn sé nokkuð í land áður en varanlegur viðsnúningur verði á losun koltvísýrings. Skýr og trúverðug framtíðarsýn um hvernig hverfa megi frá notkun jarðefnaeldsneytis sé mannkyninu nauðsynleg, svo hamla megi gegn loftslagsbreytingum að einhverju gagni.