Aðeins eitt af 74 vatnsúðakerfum var virkt á Íslandi 1993
Febrúar 1993
EF vatnsúðakerfi hefði verið í Windsor- kastala þegar eldur kom þar upp s.l ár hefði það komið í veg fyrir eyðileggingu ómetanlegra verðmæta. Hér á landi hefur 74 sjálfvirkum úðakerfum verið komið fyrir í 62 byggingum, en aðeins kerfið í Leifsstöð virkar sem skyldi, skv. niðurstöðum úttektar, sem Ástvaldur Eiríksson, varaslökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli, hefur gert fyrir Brunamálastofnun ríkisins.
Ástand kerfanna í öðrum byggingum er mjög ábótavant. Sum eru alveg óvirk og ótengd við vatn, þótt starfsemi sé í fullum gangi í þeim byggingum. Það á t.d. við sjálfvirkt úðakerfi, sem var sett upp á Bessastöðum. Sum kerfin teljast gallalítil en ekkert er án ágalla. Rekja má marga til mistaka hönnuða og uppsetningarmanna og ámælisverðrar umgengni. Engar formlegar úttektir hafa farið fram og hvorki eftirliti né viðhaldi sinnt, segir í niðurstöðum Ástvaldar. Leitast var við að kanna almennt ástand kerfanna og hvort þau myndu valda hlutverki sínu ef eldur yrði laus.
Ástvaldur sagði gerða kröfu um úðakerfi í sumum byggingum svo fyrir þeim fáist samþykki. Annars yrði að hólfa þær meira niður. „Ástæðan þess að menn telja verjandi að sleppa ýmsum kröfum gegn uppsetningu úðakerfis er að reynslan af þeim er mjög góð annars staðar og hafa þau verið í stöðugri þróun frá aldamótum. Tryggingafélög útvega oft úðakerfin sjálf eða veita afslátt af iðgjöldum svo að kerfið borgar sig upp á skömmum tíma. Kostnaður við meðalstærð kerfa er um 1 til ein og hálf milljón kr. Tryggingafélög sinna ekki neinu eftirliti og vita ekkert um hvort kerfin virka eða ekki.“
Eftir orðanna hljóðan slekkur sjálfvirkt úðakerfi eld með því að úða yfir hann vatni. Vatnsrör eru lögð um húsnæði skv. sérstökum reglum. Með vissu millibili er komið fyrir sjálfvikrum úðahausum. Innbyggt í þá er hitavar sem bráðnar /brotnar við ákveðið hitastig og opnar fyrir vatnsrennsli.
Tvær gerðir eru algengastar, þurrkerfi og blautkerfi. Þar sem hitastig er ávallt yfir frostmarki er notað blautkerfi en í óupphituðu húsnæði er notað þurrkerfi.
Brunamálastofnunin vinnur nú að reglum og leiðbeiningum um eftirlit, prófun og viðhald sjálfvirkra úðakerfa. Þær byggjast að mestu á leiðbeiningum um sama efni gefnum út af bandaríska brunavarnasambandinu.