Hondúras – Umhverfisverndarsinni myrtur fyrir að berjast gegn stíflugerð vegna vatnsaflsvirkjunar
Umhverfisverndarsinni, sem barðist gegn stíflugerð vegna vatnsaflsvirkjunar sem ógnar landi Lenca-frumbyggja í Hondúras, fannst myrtur í gær. Frá þessu greindu umhverfis- og frumbyggjaverndarsamtökin Chopin.
Lesbia Janeth Urquia tilheyrði samtökunum en hún fannst myrt í skurði í bænum Marcala í gær. Dánarorsökin er sögð vera sveðjuhögg í höfuð hennar. Urquia var 49 ára þegar hún var myrt.
Þetta er ekki fyrsta morðið á aðgerðasinnum sem berjast gegn stíflugerðinni en í mars fannst Berta Cácere, heimsþekktur umhverfisverndarsinni, látin. Hún var skotin af tveimur árásarmönnum snemma morguns 2. mars sl. og sagði móðir hennar að Cácere hefði ítrekað fengið líflátshótanir vegna baráttu hennar fyrir réttindum innfæddra og í þágu umhverfisverndar.