Slímdýr át sig inn í heila stúlku í vatnagarði
Vatnagarði í Norður-Karólínu hefur verið lokað eftir að ung stúlka lést af völdum slímdýrs eða amöbu sem át sig inn í heila hennar.
Stúlkan sem lést var átján ára gömul. Hún er talin hafa komist í snertingu við slímdýrið í vatnagarði í Charlotte fyrr í þessum mánuði, segir í frétt Guardian um málið. Þar var hún á ferðalagi ásamt hópi sem tengdist kirkjunni í heimaríki hennar, Ohio. Smitsjúkdómayfirvöld segja að stúlkan hafi látist vegna fágætrar sýkingar sem slímdýr, amaba, af tegundinni naegleria fowleri, veldur.
Slímdýrið mannskæða fannst í meirihluta þeirra 11 sýna sem tekin voru úr vatni í garðinum.
Amaban er algeng í hlýjum stöðuvötnum, ám og heitum uppsprettum á sumrin. Hún er ekki hættuleg ef hún er gleypt en fari hún inn í líkama fólks um nef horfir málið allt öðruvísi við. Amaban er einfrumungur og getur ekki lifað í saltvatni. Hún getur heldur ekki sýkt manneskju sem drekkur vatn sem er mengað af henni.
Sýkingar í heila verður vart um níu dögum eftir að amaban kemst inn í líkama fólks. Einkennin eru m.a. höfuðverkur, hiti og uppköst. Um fimm dögum síðar deyr fólk en dánarlíkur af völdum slíkrar heilasýkingar eru mjög háar eða 97%.
Smitsjúkdómastofnun Bandaríkjanna leggur áherslu á að mjög fágætt sé að sýking vegna slímdýrsins verði í mönnum. Á síðustu 53 árum hafa aðeins 138 slík tilfelli verið skráð í Bandaríkjunum. Til samanburðar hafa um tíu manns á dag drukknað í landinu síðasta áratuginn.