Salerni á leið í útboð – Einkaaðilar hafi áhuga á rekstri salerna
Nauðsynlegt er að ráðast í úrbætur í salernismálum á níu ferðamannastöðum á Íslandi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var fyrir Stjórnstöð ferðamála. Hins vegar segir í skýrslunni að bráðabirgðalausnir fyrir sumarið sem nú er gengið í garð séu ekki fýsilegar, meðal annars sökum þess hve langan tíma tekur að fá tilskilin leyfi og vegna þess að mikil óvissa ríki um rekstur bráðabirgðasalerna. Jökulsárlón er sagt vera sá staður á landinu þar sem ástandið er verst.
Uppbygging fullnægjandi salernisaðstöðu við hringveginn kostar allt 1.000 milljónir króna að því er fram kemur fram í svipaðri skýrslu sem unnin var fyrir Vegagerðina. Lengsti vegakaflinn á hringveginum án aðgengis að salernum að nóttu til er 260 kílómetrar.
Reksturinn er flókinn
Mikil umræða varð um salernismál á ferðamannastöðum síðasta sumar. Eitt af fyrstu verkefnum Stjórnstöðvar ferðamála, sem stofnuð var í október, var að gera bragarbót á salernismálum.
Hörður Þórhallsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, segir að verið sé að vinna að þeim málum á fjórum eða fimm þeirra níu ferðamannastaða sem tilgreindir eru í skýrslunni sem unnin var fyrir Stjórnstöðina. Salernisaðstaða við Dettifoss sé til að mynda á leið í útboð.
Hann segir að ekki megi gleyma því að rekstur bráðabirgðasalerna, svokallaðra þurrsalerna, sé kostnaðarsamur. Slík salerni þurfi að þrífa tvisvar sinnum á dag. „Þú getur ímyndað þér aðkomuna á sólríkum sumardegi ef það er ekki gert,“ segir hann.