Húsavík – Byggja þarf 120 íbúðir
Gert er ráð fyrir að 200 íbúar flytjist til Húsavíkur vegna uppbyggingar kísilvers PCC á iðnaðarsvæðinu á Bakka og að þörf verði á um 120 nýjum íbúðum vegna þess. Kemur þetta fram í húsnæðisskýrslu sem ráðgjafarfyrirtækið Alta hefur unnið fyrir sveitarfélagið Norðurþing og kynnt var síðdegis í gær.
Mikill húsnæðisskortur er á Húsavík og markaðurinn hefur ekki verið virkur. Forsvarsmenn bæjarfélagsins leggja áherslu á að uppbyggingin verði farsæl fyrir samfélagið og að dreginn verði lærdómur af reynslu annarra sveitarfélaga. Sérstaklega er litið til vankanta sem upp hafa komið vegna uppbyggingar í bæjunum á Austurlandi.
Reitir í byggðinni í forgangi
Í skýrslunni er lögð áhersla á að heildarframboð þurfi að henta íbúum á öllum aldri og nauðsynlegri þróun samfélagsins. Gæta þurfi að samræmi við yfirbragð byggðarinnar, styrkja það búsetumynstur sem fyrir er, nýta vel innviði og tryggja að ekki verði offramboð á markaði. Mesta þörfin er á litlum og meðalstórum íbúðum og talið mikilvægt að stýra deiliskipulagsvinnu í þá átt.
Mælt er með því að í fyrsta áfanga verði nýttir sem mest reitir inni í byggðinni til uppbyggingar. Þannig nýtist innviðir vel, tækifæri gefst til að þétta byggðina og fjölbreytileiki eykst.
Sérstaklega er bent á tvö uppbyggingarsvæði, reitina og Skógargerðismel, vegna staðsetningar við hjarta bæjarins.