Fækkun iðnnema en metfjöldi nemenda úr Háskóla
Júní 2014
Útskrifuðum nemum úr iðnnámi hefur fækkað verulega síðustu ár. Árið 2008 útskrifuðust 225 með sveinspróf í húsasmíði en einungis 54 árið 2013. Útskrifuðum pípurum hefur fækkað um ríflega helming milli 2008 og 2013, úr 33 í 14. Um helgina útskrifaðist hins vegar metfjöldi nemenda úr Háskóla Íslands.
„Þetta er bara þróunin í þessu samfélagi. Ungviðinu er öllu beint inn á bóknámsbrautir. Þar bera bæði skólakerfið og foreldrar ábyrgð,“ fullyrðir Guðmundur Hreinsson, skólastjóri Byggingatækniskóla Tækniskólans.
Því til stuðnings bendir Guðmundur á að „…innan við tíu nemendur af 140 sem við munum innrita í haust koma beint úr grunnskóla. Sjötíu til áttatíu prósent af okkar nemum eru eldri nemendur. Jafnvel háskólamenntað fólk sem ekkert hefur gengið að fá vinnu.“
Guðmundur Páll Ólafsson, formaður Félags pípulagningameistara, hefur áhyggjur af þessari þróun. „Það er skortur á iðnaðarmönnum. Okkur vantar bæði vana menn og nýnema í pípulagningar. Markaðurinn er að kalla eftir fólki en það skilar sér ekki í skólana.“
Guðmundur Páll bætir við að brottflutningar iðnaðarmanna eftir bankahrun auki á vandann: „Á tímabili fóru sex iðnaðarmenn á dag til Noregs. Þeir hafa ekki skilað sér heim.“
Sigurður Sigurðsson, formaður Múrarameistarafélags Reykjavíkur, tekur undir að staðan sé áhyggjuefni. Á síðasta ári útskrifuðust sjö með sveinspróf í múraraiðn. „Það þyrfti að útskrifa um fimmtán á ári. Aðsóknin hefur dregist verulega saman frá 2007. Fólk hefur ekki fengist í námið. Síðan hafa múrarameistarar ekki viljað taka að sér lærlinga vegna verkefnaskorts síðustu ár.“
Sigurður segir að nú virðist uppsveifla vera fram undan í byggingargeiranum eftir doða síðustu ára. „Þessar sveiflur gera okkur erfitt fyrir. Nú verður staðan líklega leyst með því að flytja inn iðnaðarmenn líkt og gert var á árunum 2002–2004.“ Sigurður bætir við að það geti hins vegar reynst erfiðara því leiguhúsnæði sé dýrara og launin hlutfallslega lægri á Íslandi en þá.