Kælibúnaður ofurtölvu Veðurstofunnar bilaði – Stillingaratriði og varaleið kælikerfis óvirk
Enga skemmdir urðu á vélbúnaði Veðurstofunnar þegar alvarleg bilun varð í kælibúnaði tölvukerfa hennar í gær. Hafdís Karlsdóttir, starfandi forstjóri, segir orsök bilunarinnar stillingaratriði sem hafi þurft að lagfæra. Vandamálið muni ekki koma upp aftur og byrjað sé að undirbúa varaleið.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað til á Veðurstofuna í gærdag þegar vart varð við bilun í kælibúnaðinum. Keyra þurfti niður ofurtölvu dönsku veðurstofunnar og hluta tölvukerfis Veðurstofunnar á meðan slökkviliðsmenn dældu köldu lofti inn í tölvusalinn.
„Það er búið að finna út úr því hvað þetta var og þetta mun ekki gerast aftur. Það var stillingaratriði í kælibúnaðinum sem þurfti að lagfæra,“ segir Hafdís.
Það hafi komið í ljós þegar farið var yfir villuboðin sem bárust frá búnaðinum. Starfsmenn Veðurstofunnar munu senda dönsku veðurstofunni skýrslu um atvikið fyrir lok dags í dag.
Gera klárt til að virkja varaleið
Hafdís segir mikinn lærdóm fylgja uppákomunni sem hún líkir við eldfjallaæfingu. Búnaðurinn sé mikill og flókinn og hann sé raunveruleg að slíta barnsskónum.
„Það að það komi eitthvað upp það er ekkert óeðlilegt en við erum afskaplega fegin að þetta fór allt saman vel. Alltaf þegar einhver atburður á sér stað sem hefur svona mikil áhrif þá er farið í það að greina það sem gerðist, hvað við getum lært af því og hvað má betur fara ef eitthvað svona gerist aftur,“ segir hún.
Veðurstofan hefur beðið eftir því að varaleið fyrir kælingu tölvukerfisins komist í gagnið. Til þess þarf stærri vatnslögn en til að koma henni við þarf að taka vatn af hverfinu. Hafdís segir að starfsmenn frá Veitum hafi mætt í morgun til að gera klárt fyrir það svo hægt verði að virkja varaleiðina.
Heimild: Mbl