Fimm eyjar sokknar í sæ
Hækkandi yfirborð sjávar og strandrof hafa valdið því að fimm eyjar Solomoneyja hafa sokkið í Kyrrahafið. Rannsókn ástralskra vísindamanna sýnir að sex afskekktar rifseyjar til viðbótar hafa orðið fyrir verulegu rofi. Ekki var búið á eyjunum fimm en annars staðar hefur ágangur sjávar eyðilagt tvö þorp.
Vísindamennirnir segja að eyjarnar fimm hafi allar verið grónar rifseyjar sem voru allt að fimm hektarar. Sjómenn notuðu þær stundum en ekki var búið á þeim.
Óttast er að hækkandi yfirborð sjávar vegna hnattrænnar hlýnunar muni sökkva láglendum kóralrifjum í Kyrrahafi í sæ. Á Solomoneyjum hefur yfirborð sjávar hækkað allt að þrefalt meira en heimsmeðaltal.
Rannsóknin getur nýst til að skilja hvernig vaxandi ágangur sjávar mun hafa áhrif á berskjölduð landsvæði. Hún leiddi í ljós að rofið er mest þar sterkar öldur berja ströndina.
Yfirvöld á Solomoneyjum hafa þegar þurft að bregðast við. Flytja þurfti íbúa tveggja þorpa sem höfðu verið til að minnsta kosti frá árinu 1935 annað eftir að þau urðu öldunum að bráð. Taro, höfuðborg Choiseul-héraðs, verður brátt fyrsta höfuðborg héraðs í heiminum til að flytja íbúa og þjónustu til vegna hættunnar á hækkun yfirborðs sjávar.
Heimild: Mbl