Kúluskítshátíðin Mývatni 3 árið í röð – Þörunginn er hvergi að finna nema í Mývatni og einu japönsku vatni

mbl

kuluskitur hatid myvatn

September 2005

KÚLUSKÍTSHÁTÍÐIN 2005 fór fram nú um helgina og er þetta þriðja árið sem þessi tveggja daga hátíð er haldin hér. Hátíðin hófst með því að farin var skrúðganga frá Sel hóteli út með Stakhólstjörn þar sem kúluskítshöfðinginn kom að landi á báti sínum með nokkrar gullfallegar kúlur sem hann afhenti Yngva Ragnari hótelstjóra til varðveislu yfir hátíðina.

Mannfjöldi tók þátt í skrúðgöngunni í fögru veðri og voru þar á meðal yfir 70 japanskir ferðamenn, sem glöddust mjög við þessi hátíðahöld, enda er fyrirmyndin einmitt sótt til Japan.

Þar heitir kúluskíturinn „marimo“ og er þjóðargersemi. Þriggja daga hátíð er haldin ár hvert við vatnið þar sem hann finnst í Japan, með miklu tilstandi og miklum hefðum sem tengjast kúluskít.

Vatnaskúfur skal hann heita

Í Mývatnssveit hafa veiðibændur lengi þekkt kúluskít, enda flækist hann í netum þeirra þegar lagt er á svæði þar sem hann lúrir á botninum. Gamall veiðimaður sagði fréttaritara að menn hefðu ekki kippt sér upp við að fá hann í netin því hann er auðhristur úr þeim og því meinlaus.

Það var síðan 1977 sem rannsóknamenn urðu fyrst varir við þennan sérkennilega gróður og áttu lengi í erfiðleikum með að átta sig á fyrirbrigðinu, og reyndar ekki fyrr en japanskur fræðimaður, dr. Isamu Wakana, hafði samband við Árna Einarsson um 1999 sem sú sérkennilega staða varð mönnum ljós að fyrirbrigðið er hvergi að finna á jörðu hér nema í Mývatni og einu japönsku vatni.

Jurtin finnst að vísu í fleiri vötnum á Íslandi, en það sérkenni að hún myndi 12 cm kúlu eða bolta er einstakt hér. Nú hefur jurtinni verið gefið íslenskt heiti sem er „vatnaskúfur“. Árni Einarsson sagði það vera nokkurn mælikvarða á heilbrigði vatnsins hvernig kúluskíturinn dafnar. Hann hefur verið heldur á undanhaldi þessi ár síðan farið var að rannsaka tilvist hans í Mývatni.

Von um góða veiði á næsta ári

Margt var til skemmtunar á hátíðinni um helgina. Dr. Árni Einarsson sagði frá kúluskítnum, samkeppni var meðal barna um bestu teikningu, fjölbreytt leiktæki voru í boði, Eistarnir Jan og Valmar fluttu tónlist með fiðlum og píanóleik. Þjóðdansar voru stignir með söng sem danshópurinn Vefarinn frá Akureyri flutti á planinu við Sel hótel við hrifningu viðstaddra. Trúðurinn Skralli skemmti fólki. Boðið var uppá kaffihlaðborð, matarveisla var um kvöldið, varðeldur, flugeldasýning og dansleikur. Kynnir á dagskránni var Arnór Benónýsson. Á sunnudag var farið aftur niður á vatnsbakka og kúluskítnum skilað til síns heima og fylgir þeirri athöfn sú ósk og von að góð veiði gefist á næsta ári.

 

 

Fleira áhugavert: