Íslenskur Kúluskítur (Vatnakúfur) Mývatns og Japanskur Marimo – Ólík örlög bræðranna

ruv

Smella á mynd til að heyra umfjöllun Spegilsins

kuluskitur a

 

Þeir þrífast báðir á svæði sem verndað er samkvæmt Ramsarsamningnum um votlendi og báðir hafa þeir orðið fyrirmynd teiknimyndapersónu. Þau örlög sem mývetnski kúluskíturinn og japanskur bróðir hans marimo hafa hlotið eru þó gjörólík.

 

Mynd með færslu

Kúluskítur Mynd: wikimedia

Ein helsta skrautfjöður Mývatns

Eitt af því sem hefur verið hvað táknrænast fyrir Mývatn í gegnum tíðina er vatnaskúfurinn, þörungur sem mývetnskir veiðimenn nefndu kúluskít. Slý og þörungar sem festust í netunum kölluðust einfaldlega skítur og þessi var kúlulaga. Þörungurinn sem myndar kúluskítinn þrífst í kalkríkum vötnum og hefur fundist á hátt í 300 svæðum í heiminum, hann á sér nokkur vaxtarform en kúluskíturinn er það sjaldgæfasta. Það er erfitt fyrir ljóstillífandi plöntur að vera kúlulaga, og skíturinn, sem ekki er botnfastur, reiðir sig á að straumar snúi honum reglulega þannig að allir hlutar hans fái ljós. Vísindamenn uppgötvuðu kúluskítinn í Mývatni fyrst árið 1977 og þótti fyrirbærið sérkennilegt. Árið 1994 setti Náttúruverndarráð upp gestastofu fyrir ferðamenn í Mývatnssveit og þar var kúluskíturinn í öndvegi, útbúin sérstök kúluskítsteiknimyndapersóna og ferðamönnum gefinn kostur á að handleika plöntuna. Hann var mönnum ráðgáta þar til árið 1999. Þá setti japanskur plöntulífeðlisfræðingur, sem séð hafði mynd af íslenska kúluskítnum á netinu, sig í samband við vísindamenn við Mývatn og tilkynnti þeim að kúluskíturinn ætti bróður í Japan.

Akanvatn japan

Kan-vatn á Hokkaido-eyju Smella á mynd til að stækka

Kanarífugl Mývatns horfinn

Þekktustu heimkynni kúluskítsins eru sennilega í Japan og á Íslandi og eru bæði svæðin vernduð í Ramsarsamningnum. Örlögin hafa ofið þeim bræðrum kúluskít og marimo, eins og skíturinn heitir á japönsku, ólíka þræði. Marimo sem finnst í Akan-vatni á Hokkaido-eyju er í tiltölulega góðum gír. Saga hans er um margt ævintýraleg. Japanir náðu með verndarinngripum og innleiðingu nýrra hefða að heimta skítinn úr helju eftir erfitt þrengingaskeið. Á Íslandi er sagan dapurlegri, þessi ljósháði og viðkvæmi þörungur, sem kalla mætti kanarífugl Mývatns, er horfinn úr vatninu og óljóst hvort hann á afturkvæmt. Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn ritaði um hann minningargrein vorið 2014. Ástæða hvarfsins er sú að síðastliðin þrettán sumur hefur algert myrkur ríkt á botni Mývatns vegna mikils magns blágerla í því. Gerlarnir blómgast þegar þeir hafa nóg að bíta og brenna. Vatnið er náttúrulega ríkt af næringarefnum en næringarefni berast einnig í það frá mannabyggð og landbúnaði.

myvatn

Mývatn

Líkt og fram kom í Speglinum í gær hefur mikið verið rætt um það hvort það myndi einhverju breyta fyrir lífríkið í vatninu, yrði fráveitukerfið í Skútustaðahreppi tekið í gegn og komið í veg fyrir að fosfór og köfnunarefni berist úr rotþróm í grunnvatn og þaðan út í vatnið. Skútustaðahreppur hefur ekki burði til þess fjárhagslega að laga kerfið, sem er á hans ábyrgð, en Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, segist vilja hjálpa.

„Ég er því miður ekki með peningavaldið en mér finnst líklegt að ég leggi fyrr en síðar fram í ríkisstjórn minnisblað þar sem ég bið um að við aðstoðum sveitarstjórnina út af þeim auknu kröfum sem við höfum gert og viljum gera varðandi fráveitumál, þó skýrslur kannski sanni að það orsaki ekki breytinguna sem nú er þá á vatnið alltaf að njóta vafans.“

Árni segir óljóst hvort fráveituaðgerðir og minni áburðarnotkun nægi til að snúa þróuninni við en bendir á að mikill munur sé á magni bláþörunga í vatninu eftir árum og svo virðist sem lítið þurfi til þess að bláþörungablómi bresti á. Það gefi til kynna að jafnvægið sé viðkvæmt, magn næringarefna í vatninu sé nálægt þröskuldinum. Hugsanlega geti aðgerðir til þess að draga úr losun frá landbúnaði og mannabyggð því haft áhrif.

Gæti átt afturkvæmt

Árni segir að kúluskíturinn, sem hefur verið friðlýstur í áratug, gæti átt afturkvæmt, batni skilyrðin í vatninu og ekki sé víst að það tæki hann langan tíma að koma sér fyrir þar aftur. Aegagropila linnaei, tegundin sem myndar hann, er enn til staðar í nærliggjandi vötnum og berst því auðveldlega í Mývatn. Þá er eitthvað eftir af henni á botni vatnsins.

Mynd með færslu

Kúluskítsbreiða Mynd: Ramý

Þjóðargersemistitill kom sér illa

Kúluskíturinn í Akan-vatni uppgötvaðist á 19. öld. Árið 1921 lýstu japönsk stjórnvöld þörunginn hnöttótta þjóðargersemi. Það kom honum illa, hróður hans barst vítt og breitt um Japan, hann þótti mikið stofustáss og allir vildu verða sér úti um eintak. Kúluskíturinn gekk kaupum og sölum fyrir fúlgur fjár. Þessi mikla kúluskítstaka gekk mjög nærri stofninum í Akan-vatni. Á þriðja áratug síðustu aldar, var skógarhögg stundað við vatnið og drumbum fleytt á því, við bættust virkjunarframkvæmdir sem höfðu áhrif á vistkerfi vatnsins. Á þessum tíma hvarf kúluskíturinn nánast úr vatninu. Á fjórða áratug aldarinnar var svæðinu umhverfis vatnið breytt í þjóðgarð og á sjötta áratugnum var kúluskíturinn friðaður og kúluskítshátíðin kynnt til sögunnar, með henni var Ainu-þjóðflokkurinn, sem býr á svæðinu, virkjaður í verndarstarfinu. Fólk var samhliða hvatt til þess að skila þörungum, sem það hafði tekið úr vatninu, í það aftur.

 Mynd með færslu

Marimo-hátíðin stendur yfir í þrjá daga. Fulltrúi Ainu-fólksins tekur við upphaf hátíðarinnar nokkrar kúlur úr vatninu, sérstök verndarathöfn fer fram, farin skrúðganga og dansað til heiðurs þörungunum. Á þriðja degi er marimo-kúlunum sem teknar voru skilað aftur til vatnsins.

 

kuluskitur hatid myvatn Hátíð að japönsku fordæmi haldin við Mývatn

Yngvi Ragnar Kristjánsson, núverandi oddviti Skútustaðahrepps og hóteleigandi, stóð fyrir Kúluskítshátíð við Mývatn í nokkur ár, að japönsku fordæmi.

Orðnir á stærð við fótbolta

Ofauðgun hefur einnig ógnað marimo-þörunginum.  Að sögn Árna, sem heimsótt hefur svæðið, var öllu skólpi frá þorpinu við Akan-vatn veitt burt, út fyrir vatnasvið þjóðgarðsins. Síðan hefur skyggni í vatninu batnað mjög og þörungarnir eru orðnir stærri en nokkru sinni, á stærð við fótbolta en voru áður á við geisladisk í þvermál, eins og kúluskíturinn í Mývatni. Í þorpinu er seldur ýmis túristavarningur tengdur kúluskítnum, Japanir státa líka af dónalegri teiknimyndafígúru, tengdri honum – sú ber nafnið Marimokkori. Þar hefur verið skeytt saman nafni kúluskítsins og orðinu mokkori sem þýðir bunga og er slanguryrði yfir holdris.

 

Mynd með færslu

Marimokkori Mynd: Wikipedia

 Á víða undir högg að sækja

Kúluskítur hefur fundist í víða um heim, til dæmis í Úkraínu og Hollandi. Víðast hvar á hann þó undir högg að sækja; súrt regn, framkvæmdir hvers konar og kaupmenn hafa leikið hann grátt. Enn þykir mörgum skíturinn fara vel í fiskabúri og á verslunarsíðunni Amazon er hægt að kaupa kúlu fyrir innan við þúsundkall.

 

Mynd með færslu

Skjáskot, kúluskítur til sölu á Amazon.com

 Í vísindagrein eftir kúluskítsfræðinginn Christian Boedeker og fleiri sem birtist í tímaritinu Bioscience árið 2010 kom fram að nær undantekningarlaust væri skíturinn sóttur í vötnin Shatsk og Svityaz í norðvesturhluta Úkraínu. Sumir vatnaplöntusalar nota móðurplöntur þaðan og rækta svo sjálfir. Sá kúluskítur sem seldur er í Japan og víðar í Suðaustur-Asíu sé því í langflestum tilfellum af úkraínskum uppruna. Það sem ógnar kúluskít þó sennilega mest á heimsvísu, samkvæmt Boedeker, er ofauðgun næringarefna af mannavöldum. Hún er talin eiga stóran þátt í því að á síðastliðnum þremur áratugum hefur þörungurinn horfið úr helmingi þeirra vatna sem hann óx í áður – og lausa kúluformið er sérstaklega berskjaldað. Boedeker segir auðgunina einnig haft áhrif í Japan, í Akan-vatni og sérstaklega öðrum vötnum þar sem skíturinn vex, þó enn standi hann betur þar en víðast hvar annars staðar.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: