Landsvirkjun – 50% hækkun orkuverðs til Norðuráls verðið tengt markaðvirði í Norður Evrópu

visir

Talið er að nýr orkusamningur Norðuráls og Landsvirkjunar, sem tilkynnt var um í dag, geti falið í sér yfir fimmtíu prósenta hækkun orkuverðs vegna tengingar við markaðsverð í Norður-Evrópu. Athygli vekur að samningurinn gildir aðeins til fjögurra ára.

Um þriðjungur af raforku álversins á Grundartanga kemur frá Landsvirkjun. Núgildandi orkusamningur rennur út síðla árs 2019. Í fréttum Stöðvar 2 var rætt við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, um nýja samninginn.

Með honum verður tenging við álverð afnumin en í staðinn tengt við markaðsverðs raforku í Norður-Evrópu. Þar af leiðandi ráðast tekjur Landsvirkjunar af því markaðsverði sem verður á gildistíma samningsins.

Hörður segir að miðað við allar spár megi gera ráð fyrir að um sé að ræða umtalsverða tekjuhækkun fyrir Landsvirkjun. Forstjórinn vill þó ekki nefna neina tölu um það hversu mikil hækkun gæti falist í þessum samningi.

Sérfræðingar sem Stöð 2 ræddi við áætla þó að hún gæti orðið yfir 50 prósent. Nýi samningurinn tekur hins vegar ekki gildi fyrr en í nóvember 2019 og gildir til ársloka 2023, eða í fjögur ár.

 

Heimild: Vísir

Fleira áhugavert: