Hreppslaug – Friðlýst af Minjastofnun Íslands

minjastofnun

hreppslaug

Ljósmyndin af Hreppslaug er tekin af Kristínu Jónsdóttur – Smella á mynd til að stækka

Vesturland – Hreppslaug – Skorradalshrepp

Byggingarár: 1928-1929.

Höfundur: Sigurður Björnsson yfirsmiður.

Friðlýsing:

Friðlýst af forsætisráðherra 28. maí 2014 með vísan til 3. mgr. 18. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Friðlýsingin tekur til steinsteypts hluta hins upphaflega laugarmannvirkis en nær ekki til seinni tíma breytinga eða þjónustuhúss.

Hreppslaug er steinsteypt sundlaug, 10 x 25 m, byggð 1928-29 af Ungmennafélaginu Íslendingi skammt frá bænum Efri­-Hrepp í Andakíl, Borgarfirði. Hún er fimm árum yngri en Seljavallalaug undir Eyjafjöllum, sem er friðlýst mannvirki. Hreppslaug var fyrsta steinsteypta sundlaugin í Borgarfirði og var um árabil helsta útisundlaug héraðsins. Heimildir eru um byggingu 25 steinsteyptra sundlauga hér á landi á árabilinu 1923-1940.

Að mati Minjastofnunar hefur Hreppslaug gildi frá sjónarhóli byggingarlistar sem óvenjulegt steinsteypumannvirki, hannað af Sigurði Björnssyni yfirsmið Hvítárbrúar. Laugin hefur mikið menningarsögulegt gildi sem vitnisburður um félags- og íþróttastarf ungmenna­félaganna og sem mikilvægur staður í menningar- og félagslífi héraðsins. Mannvirkið situr fallega í landinu og tengist umhverfi sínu á áhrifamikinn hátt. Steyptur hluti laugarinnar er lítið breyttur en seinni tíma viðbætur, handrið, skjólveggir og þjónustuhús eru til lýta í núverandi mynd. Laugin er í notkun en viðgerð og endurbætur eru aðkallandi.

Minjastofnun Íslands lagði til friðlýsingu Hreppslaugar á grundvelli staðbundins menningarsögulegs gildis og fágætis, en laugin er eitt af elstu dæmum um upprunalegt steinsteypt mannvirki sem tengist hagnýtingu heits vatns í þágu sund- og baðmenningar.

Hreppslaug er enn í eigu Ungmennafélagsins Íslendings.

skorradalur

Skorradalur

Heimild: Minjastofnun

Fleira áhugavert: