Blýmengun í neysluvatni í borginni Flint Bandaríkjunum – Mistök yfirvalda og ábyrgðarskyldu þeirra
2016
Bæjarstjórinn í bænum Flint í Michigan hefur lýst yfir neyðarástandi vegna blýmengunar í vatni. Niðurstöður rannsóknar leiddu í ljós að tvöfalt fleiri börn mælast nú með óvenjumikið blýmagn í blóði eftir að bæjaryfirvöld ákváðu að nota vatn úr Flint-ánni sem drykkjarvatn í fyrra.
Áður en ákvörðunin var tekin af fyrri bæjarstjórn á síðasta ári fengu íbúar Flint vatn sitt frá Detroit-borg. Bæjarstjórnin hrökklaðist frá vegna óánægju með hvernig hún tók á vatnsmálum bæjarins. Margir bæjarbúar óttast að búið sé að eitra fyrir börnunum þeirra.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að blý hafi áhrif á þroska heila barna sem getur leitt til greindarskerðingar, hegðunarraskana og skertrar námsgetu. Einnig getur blýeitrun valdið blóðleysi, háþrýstingi, nýrnavandamálum, ónæmiseitrun og eituráhrifum á æxlunarfæri. Taugafræðileg áhrif og hegðunarraskanir af völdum blýs eru taldar óafturkræfar.
Karen Weaver, bæjarstjóri Flint, lýsti því yfir neyðarástandi í gærkvöldi með þeim orðum að bærinn hafi orðið fyrir hamförum af mannavöldum. Hún segist ætla að leita til alríkisstjórnarinnar eftir aðstoð til að eiga við afleiðingarnar fyrir börn bæjarins. Þau muni þurfa á aukinni sérkennslu og geðheilbrigðisþjónustu að halda.
Nánast um leið og skipt var um vatn bæjarins í apríl í fyrra byrjuðu kvartanir frá íbúum að streyma inn. Sögðu þeir vatnið vera eins og ský að lit og lykta illa. Embættismenn bæjarins og Michigan-ríkis þrættu í fyrstu fyrir að vatnið væri óhollt en ríkið gaf síðar út viðvörun um að styrkur klórefnis í vatninu sem tengt hefur verið við krabbamein og aðra sjúkdóma væri yfir löglegum mörkum.
Eftir mótmæli íbúa Flint ákvað ríkisstjóri Michigan-ríkis loks að bærinn fengi aftur vatn frá Detroit. Þaðan byrjaði vatnið aftur að streyma til Flint 16. október. Ótti bæjarbúa er hins vegar að skaðinn sé þegar skeður og blýmengunin hafi varanleg áhrif á börn þeirra.
Dómsmálaráðherra Michigan ríkis hefur ákært þrjá í tengslum við vatnsmengunina í borginni Flint. Um er að ræða tvo starfsmenn á umhverfissviði Michigan ríkis og einn starfsmann borgaryfirvalda í Flint. Starfsmenn umhverfissviðsins eru sakaðir um að hafa blekkt bandarísk stjórnvöld og svo á borgarstarfsmaðurinn að hafa átt við niðurstöður prófana á vatninu.
Blýmengun í vatninu í borginni hafði áhrif á næstum því 100.000 íbúa borgarinnar en stærstur hluti íbúanna býr við mikla fátækt.
Málið hefur vakið mikla athygli en blýið getur orsakað hegðunarvandamál í börnum og gert þeim erfitt að læra. Þá hafa íbúar sagt frá einkennum eins og útbrotum og hármissi.
„Það var þeirra skylda að vernda heilsu fjölskyldna og íbúa Flint og þeim mistókst,“ sagði dómsmálaráðherrann Bill Schuette á blaðamannafundi í dag þegar hann sagði frá ákærunum.
Málið hefur vakið gríðarlega athygli en einnig reiði og snýst málið um miklu meira en mengað vatn heldur þá frekar um mistök yfirvalda og ábyrgðarskyldu þeirra.
Ákærurnar í dag eru taldar tákna lítið skref í átt að því að finna út hver ber ábyrgð á menguninni sem hefur haft þessi alvarlegu áhrif.
Ríkisstjóri Michigan, Rick Snyder, hefur lofað því að finna þá sem bera ábyrgð. Þá tilkynnti hann í vikunni að hann myndi drekka síað vatn frá Flint næstu 30 dagana. Kallað hefur verið eftir því að Snyder segi af sér vegna málsins en hann var spurður út í mengunina á bandaríska þinginu í mars. Þar lofaði hann því að málið yrði rannsakað í þaula.
Heimild:Mbl