Norðlendingar uggandi vegna rammaáætlunar
Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri Skagfirðinga segir Norðlendinga uggandi yfir drögum að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, sem verkefnisstjórn rammaáætlunar lagði fram í gær.
Þar er meðal annars lagt til að í verndarflokk fari virkjunarkostir Héraðsvatna og Skjálfandafljóts, þar sem ekki þykir rétt að ráðast í framkvæmdir. Kaupfélag Skagfirðinga á virkjunarréttindi í Héraðsvötnum og ljóst er að þau fara forgörðum nái tillögurnar fram að ganga.
„Við fyrstu sýn virðist okkur sem stefnan sé sú að virkja eigi einungis í þeim fallvötnum sem virkjuð eru fyrir, en annað eigi að friða,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Staða Norðurlands virkilega veik
„Persónulega finnst mér þetta alveg óraunhæft, að einhver nefnd aðila ákveði það til dæmis fyrir Norðurland um alla framtíð að það sé ekki hægt að nýta þá möguleika sem felast í orku fallvatnanna.
Ef þetta gengur fram með þessum hætti þá er staða Norðurlands orðin virkilega veik til uppbyggingar byggða og atvinnu til framtíðar,“ segir hann og bætir við að með tímanum breytist mjög margt í tilhögun virkjana og útfærslumöguleikum þeirra.
„Þannig manni finnst sem leikmanni að það séu forsendur til að hafa þá virkjunarkosti á Norðurlandi, sem verið hafa til umræðu, áfram til skoðunar.“
Hann segist skynja það að Norðlendingar séu uggandi ef loka eigi á möguleika þeirra af þeirri ástæðu einni, að ekki hafi fyrr verið byrjað að virkja í þeim landshluta.
„Ég held að Norðlendingar muni aldrei una því að það verði einhver nefnd sem ákveði það að það sé ekki hægt að hafa eðlilega raforkuframleiðslu í landshlutanum. Ég geri ekki lítið úr því að menn eru með góðar meiningar gagnvart náttúrunni og við erum með þær sömuleiðis.“
Ekki endanlega niðurstaðan?
„En við teljum að þetta eigi að vera til umfjöllunar og mats á hverjum tíma og svo sé það ákvörðun hvers tíma hvað gert er. Við munum að sjálfsögðu fara yfir þetta og áskiljum okkur allan rétt til að koma að athugasemdum og öðru slíku.
Við treystum því raunverulega að þetta verði ekki endanlega niðurstaðan, enda teljum við hana ekki hafa verið rökstudda. Það hefur ekki farið fram nein fræðileg úttekt á þeim möguleikum sem eru til staðar við virkjun Héraðsvatna.“
Skagfirðingum sé refsað fyrir varkárni
Þórólfur hvetur Norðlendinga til að standa saman um að fá að halda þessum möguleikum opnum og segir að þeir eigi ekki að þurfa að gjalda fyrir varkárni sína á þessu sviði.
„Við hér í Skagafirði höfum viljað vanda okkur við mögulega útfærslu á virkjun Héraðsvatna og það á ekki að refsa okkur fyrir það að hafa ekki verið búnir að virkja. Við viljum bara gera það mjög vel ef til þess kæmi að hér yrði virkjað.“
Heimild: Mbl