Amenningssalerni Reykjavík – 5,3 milljónir í rekstur hvers salernis
Skýrsla starfshóps um almenningssalerni í Reykjavík var kynnt nýlega á fundi umhverfis- og skipulagsráðs. Þar kemur fram að nokkrum almenningssalernum í Reykjavík hafi verið lokað frá 2007 og er lagt til að ný verði opnuð á næstu árum. Árleg notkun almenningssalerna í miðborginni hefur farið vaxandi.
Sjö sjálfvirkir salernisturnar eru opnir allan sólarhringinn í miðborginni. Eins er hægt að létta á sér á salernum ýmissa stofnana borgarinnar á þeim tíma sem opið er. Auk þess er hægt að komast á salerni á nokkrum stöðum sem opnir eru almenningi.
Turnsalernin eru í rekstrarleigu frá AFA JCDecaux sem sér um eftirlit og þrif a.m.k. einu sinni á dag. Salernin og salernisgólfið hreinsast auk þess sjálfvirkt eftir hverja notkun. Samningur um rekstur þessara salerna rennur út 2018. Starfshópurinn leggur til að salerni verði áfram þar sem turnsalernin eru nú eftir að samningnum lýkur. Við endurnýjun eigi fyrsta val að vera salerni með aðgengi fyrir alla, þ.e. jafnt fatlaða sem ófatlaða.
Fram kemur í skýrslunni að rekstrarkostnaður hvers turnsalernis sé um 5,3 milljónir á ári. Talið er hagkvæmara að kaupa salerni en að leigja, þegar kemur að endurnýjun. Áætlað er að stofnkostnaður við nýtt salerni sé 27,3 milljónir og er rekstrarkostnaður 2,3 milljónir á ári. Hugmyndin er að endurnýja fjögur salerni 2018 og þrjú 2019.
Þá leggur starfshópurinn til að settir verði upp fleiri salernisturnar með aðgengi fyrir alla og sjálfvirkri hreinsun. Nefndir eru níu staðir í því sambandi, m.a. Laugatorg, Vitatorg, Fossvogsdalur, Sæbraut, Klambratún, Elliðaárdalur og Nauthólsvík.
Einnig er lagt til að setja upp stærri tilbúnar einingar með fjórum salernum hverja, þar af einu með aðgengi fyrir alla, í Laugardal og á Bernhöftstorfu. Stofnkostnaður við hvert er áætlaður 32,2 milljónir og rekstrarkostnaður 3,4 milljónir á ári. Þá er lagt til að sett verði upp gámaeining við göngustíg að Esju með 2-3 salernum, þar af einu með aðgengi fyrir alla. Stofnkostnaður er áætlaður 20 milljónir og rekstrarkostnaður 2,7 milljónir á ári eftir það.
Einnig er lagt til að útbúnir verði tengistaðir þar sem hægt verður að setja upp mörg almenningssalerni vegna stærri viðburða í borginni.
Talsverður áhugi er hjá einkaaðilum á að reka salerni í miðborg Reykjavíkur gegn aðgangseyri. Reykjavíkurborg hefur nýlega leigt einkaaðilum salerni við Vesturgötu 7 og stendur til að opna þar. Salerni á Hlemmi verða einnig rekin af einkaaðilum þegar þar verður opnaður matarmarkaður.
Starfshópurinn bendir á að hægt sé að stórauka framboð almenningssalerna með því að gera samkomulag við ýmsa aðila um að salerni þeirra verði almenningssalerni. Í því sambandi eru nefndar sundlaugar borgarinnar, ýmis söfn, skrifstofuhús borgarinnar og t.d. staðir eins og Harpa, Perlan, BSÍ og Norræna húsið. Einnig er bent á að bæta þurfi merkingar í borginni sem vísa fólki á almenningssalerni.
Heimild: Mbl