1,1 milljarður til uppbyggingar í Húsafelli
Gengið hefur verið frá 1,1 milljarða fjármögnun til áframhaldandi uppbyggingar í ferðatengdri þjónustu í Húsafelli fyrir félagið Húsafell Resort ehf. Stækka á hótelið sem var byggt nýlega og setja á laggirnar afþreyingarmiðstöð fyrir rekstraraðila afþreyingar á svæðinu.
Fjármögnunin er til komin með langtímafjármögnun frá Landsbankanum og hlutafjáraukningar. Fyrir voru það hjónin Bergþór Kristleifsson og Hrefna Sigmarsdóttir sem stóðu að uppbyggingunni, en með hlutafjáraukningunni eru félög í eigu Ómars Benediktssonar, Finns Reyrs Stefánssonar, Tómasar Kristjánssonar og Jóns Diðriks Jónssonar orðin eigendum 50% hlutafjár í félaginu.
Ómar er núverandi forstjóri Farice og hefur áður verið forstjóri og einn aðaleiganda Íslandsflugs og síðar Air Atlanta. Þá var hann framkvæmdastjóri flugfélagsins SmartLynx sem var dótturfélag Icelandair group.
Finnur Reyr og Tómas hafa meðal annars verið viðskiptafélagar í kringum fasteignafélagið Klasa, en það var síðar keypt af Reginn og eru þeir nú meðal stærstu hluthafa í því félagi í gegnum félagið Siglu ehf.
Jón Diðrik er eigandi Senu í dag, en hann er fyrrum forstjóri Glitnis á Íslandi. Jón Diðrik hefur verið stærsti hluthafi Senu um nokkurt skeið, en í lok síðasta árs keypti hann allt hlutafé í félaginu, meðal annars frá félaginu Siglu.
Heimild: Mbl