Alþýðusambandið stofnar íbúðafélag sem tryggir tekjulágu fólki 1.000 ódýrar leiguíbúðir
„Með þessu átaki, þá erum við að byrja á þúsund íbúðum á þremur stöðum sem borgarstjóri og Reykjavíkurborg hefur komið með inn“
Segir Ólafía B. Rafnsdóttir, varaforseti ASÍ.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að á þessu ári verði 150 lóðum úthlutað, 250 á því næsta og svo 300 lóðum á árunum 2018 og 2019. Lóðirnar verða hér og þar í Reykjavík.
Fyrstu svæðin eru norðan við Háskólann í Reykjavík, Spönginni í Grafarvogi og uppi í Úlfarsárdal, þannig að þetta eru lóðir á mjög góðum stöðum.
Alþýðusambandið hefur lengi bent á að tekjulágar fjölskyldur búi við mikið óöryggi í húsnæðismálum og að húsnæðiskostnaður þeirra sé langt umfram það sem eðlilegt geti talist. Borgarstjóri segir að húsnæðið verði ódýrt, sem kalli á hugvitssemi bæði í hönnun og útfærslu.
Framkvæmdir við fyrstu íbúðirnar eiga að hefjast á þessu ári og er gert ráð fyrir að þær fyrstu verði komnar í leigu um 2018.
Í tengslum við kjarasamningana sem skrifað var undir í fyrravor skuldbundu stjórnvöld sig til að setja fjármagn í byggingu allt að 2.300 félagslegra íbúða á næstu fjórum árum. Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp utan um almennt íbúðafélag eins og það sem ASÍ ætlar að stofna. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segist handviss um að það frumvarp verði samþykkt fyrir sumarfrí.
Já. Við lofuðum því. Ríkisstjórnin lofaði því að gera þetta, þetta var forsenda kjarasamninga og við sjáum það að menn eru hér að taka stór skref til þess að raungera þetta og hjálpa þeim heimilum sem þurfa á mestu aðstoðinni að halda að fá öruggt húsaskjól.
Segir Eygló Harðardóttir.
Heimild: RÚV