Vernd vatnsbólanna
Það var hvetjandi að sjá skrif Sigurðar R. Þórðarsonar um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu hér í blaðinu í gær. Þar drepur hann á margar þær ógnir sem blasa við í Heiðmörkinni og í grennd við hana og OR og Veitur hafa komið með formlegar ábendingar og viðvaranir um á síðustu misserum og árum.
Verndarsvæði neysluvatns fyrir meira en helming landsmanna var endurskilgreint af öllum sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu í fyrra að undangengnum nákvæmari rannsóknum en áður höfðu verið gerðar. Í ljósi þessa nýja vatnsverndarskipulags hljótum við að vega og meta þau umsvif sem leyfð hafa verið í gegnum tíðina, þar á meðal byggðina. Hún er innan vatnsverndar samkvæmt hinu nýja skipulagi og raunar hinu eldra líka.
Aðrar ógnir rekur Sigurður skilmerkilega og fyrir það er þakkað. Vegna niðurdælingar við Hellisheiðarvirkjun, sem Sigurður nefnir sérstaklega, skal það upplýst að sérstakar vöktunarholur eru á niðurdælingarsvæðinu til að gæta að vatnsgæðum. Skemmst er frá því að segja að engin breyting hefur fundist í grunnvatni enda ná niðurdælingarholur niður fyrir grunnvatnsstraumana á heiðinni. Áhyggjurnar eru eðlilegar og við höldum áfram að fylgjast vel með.
Hagsmunirnir af því að fólk og fyrirtæki hafi aðgang að nægu ómeðhöndluðu neysluvatni eru ómældir. Það er skoðun OR að frístundabyggð eigi ekki heima á öryggissvæðum vatnsbóla. Við viljum ná því markmiði í sem bestri sátt við eigendur húsa á svæðinu, en réttur þeirra til afnota af landi OR er runninn út. Það er til að verja rétt almennings til heilnæms vatns að OR verst kröfum um að einkaaðilar eigi afnotarétt af almannaeigum sem nauðsynlegar eru til að sinna grunnþörfum fólks.
Takk fyrir ábendingarnar og aðhaldið, Sigurður.
Heimild: Vísir