Endurnýjanlegur orkugjafi fyrir 800.000 heimili !
Það er óhætt að segja að það hafi sótt að mér kaldur hrollur þegar ég hlustaði á Ísland í bítið í morgun en þar voru Katrín Júlíusdóttir og Jón Gunnarsson, formaður atvinnumálanefndar, að fjalla um orkumál á Íslandi. Í þessu viðtali kom fram hjá formanni atvinnumálanefndar að umhverfisvænsta stóriðjuverkefni sem á fjörur okkar hefur rekið sé í stórkostlegu uppnámi vegna þess að Landsvirkjun getur ekki útvegað fyrirtækinu 25-30 megavött. Hér er ég að tala um sólarkísilverksmiðju Silicor materials en þessi verksmiðja mun framleiða sólarkísil sem notaður er í sólarrafhlöður. Þessar rafhlöður má nota sem endurnýjanlegan orkugjafa.
Rétt er að geta þess að David Attenborough náttúrulífssjónvarpsmaður og Barack Obama Bandaríkjaforseti voru að ræða loftslagsmál í þætti á CNN fyrir skemmstu og þar sagði Attenborough að framtíðin til að draga hér úr loftslagsmengun í heiminum lægi í því að heimili og fyrirtæki myndu hverfa frá mengandi orkugjöfum eins og olíu, gasi og öðru slíku. Hann sagði að framtíðin væri fólgin í sólarrafhlöðum og það væri það sem heimurinn ætti að horfa á og auka framleiðslu á til að draga hér úr neikvæðum áhrifum á loftslagið.
Það er einmitt þetta sem Attenborough er að hvetja þjóðir heims til að framleiða sem fyrirtækið Silicor materials mun framleiða en þessi afurð mun gefa 800.000 heimilum á ári möguleika á að hverfa frá mengandi orkugjöfum yfir í vistvænan endurnýjanlegan orkugjafa sem eru þessar sólarrafhlöður.
Þessu til viðbótar liggur fyrir samkvæmt fjölmörgum skýrslum að þetta verður umhverfisvænsta stóriðja á Íslandi sem mun menga eins og 24 meðal fólksbílar. Í þessu viðtali við Jón og Katrínu kom fram að vegna skorts á orku upp á skitin 25-30 megavött eru forsvarsmenn Silicor materials farnir að líta til nágrannalandanna með verksmiðjuna og kom fram í viðtalinu að hér væri um Noreg og Danmörku að ræða.
Ég bara skil ekki hvað íslenskir stjórnmálamenn eru að gera og hvernig þeir geta unnið svona gegn íslenskum hagsmunum, hagsmunum sem lúta að því að koma með verkefni inn í landið sem kostar í kringum 120 milljarða, mun skila útflutningstekjum upp á 100 milljarða á ári og skapa 450 vel launuð gjaldeyrisskapandi störf. En rúsínan í pylsuendanum er að hér er verksmiðja sem mun eins og áður sagði gefa 800.000 heimilum möguleika á að hverfa frá mengandi orkugjöfum yfir í vistvæna orkugjafa. Öll höfum við áhyggjur af hnattrænni mengun vítt og breitt um heiminn og því er þetta verkefni kjörið framlag okkar til að draga úr mengun á heimsvísu með því að vera hér með verksmiðju sem mengar sáralítið og framleiðir vöru sem að gefur möguleika á vistvænum orkugjafa í stað mengandi.
Ég skora á Alþingi Íslendinga að vinna þessu máli brautargengi og það einn, tveir og þrír því við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum verða af þessu verkefni því það mun skila íslensku þjóðarbúi miklum gjaldeyristekjum og hafa jákvæð áhrif á hnattræna mengun. Síðan skipta þær gjaldeyristekjur sem þetta mun skila okkur gríðarlega miklu máli en með þeim náum við að reka okkar samfélag og bæta þjónustuna eins og til dæmis í heilbrigðismálum, menntamálum svo ekki sé talað um málefni aldraðra og öryrkja. Við þurfum að auka verðmætasköpun á Íslandi og því ætti svona verkefni sem er umhverfisvænt, orkulítið og er að framleiða endurnýjanlegan orkugjafa að vera okkur mikið gleðiefni.
Heimild: Pressan