Sjóvarnir í Vík – Framkvæmd uppá 330 milljónir
Steingrímur spurði innanríkisráðherra hvort talin væri þörf á bráðaaðgerðum, hvort áætlanir lægju fyrir um varanlegar aðgerðir og hvað framkvæmdir myndu kosta. Ólöf segir að nýr garður eigi að kosta 256 milljónir og viðgerðir á garðinum sem fyrir er um 70 milljónir. Vegagerðin vinni nú að nánari útfærslu og hönnun á nauðsynlegum mannvirkjum og muni leggja fram kostnaðargreindar tillögur til ráðuneytisins að því loknu. Þegar niðurstaða þeirra vinnu liggi fyrir verði teknar ákvarðanir um framhald málsins. Útfærslan verði að nokkru háð dýptarmælingum við ströndina sem nú séu í undirbúningi. Lengd nýja garðsins hafi áhrif á vegalengdina á milli þeirra.
Mikið rof í suðvestanóveðri
Mikið sjávarrof hefur orðið við byggðina í Vík í óveðrum í vetur. Fárviðri af suðvestri hefur valdið miklu rofi á ströndinni. Töluvert sér á varnargarði sem gerður var árið 2011 til að verja byggðina í Vík. Austan hans hefur brotnað mikið land og sjór færist nær iðnaðarhverfi þorpsins. Áætlað var að hefja framkvæmdir við síðari garðinn á næsta ári, en heimamenn telja eftir að landbrotið varð í vetur að, málið þoli enga bið. Aðgerðir verði að hefjast á þessu ári. Á myndunum sést ströndin eftir og fyrir óveðrin.
Heimild: RÚV