Grettisgata 87 – Mikill eldur á verkstæði ..myndir/myndband
Það logar eldur í húsnæðinu að Grettisgötu 87, þar sem slökkviliðsmenn hafa verið að störfum frá því á níunda tímanum í kvöld. Ekki er vitað um eldsupptök að svo stöddu en mbl.is segist hafa heimildir fyrir því að lögregla leiti tveggja manna í tengslum við rannsókn á brunanum.
„Húsið er í raun orðið vel alelda, allavega hérna austanmegin,“ segir Jón Viðar Matthíasson hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Hann segir að ákvörðun hafi verið tekin um að senda ekki mannskap inn í húsið heldur freista þess að slökkva eldinn utan frá.
„Þetta er mikið verk en það þarf líka að biðja fólk hérna í kring um að loka gluggum og kynda,“ segir Jón Viðar. „Við teljum að það séu engar líkur á að við missum þetta frá okkur í önnur hús. Það er í rauninni bara afmarkað verkefni en það gerir það dálítið flókið að við getum ekki farið inn.“
Auka mannskapur hefur verið kallaður fyrir utan alla þá sem voru á vaktinni. Búið er að loka flestum götum í kringum Hlemm vegna aðgerða slökkviliðsins og Strætó hefur að beiðni lögreglu og slökkviliðs sent strætisvagn til að taka á móti fólki sem yfirgefið hefur íbúðir sínar í grennd við
brunann.
Fyrirtækið Bílrúðan ehf. er til húsa við Grettisgötu 87. Að sögn sjónarvotta eru allar rúður í húsinu sprungnar og mikinn reyk leggur í átt að miðbænum. glugga og þak hússins hefur verið opnað.
Heimild: Vísir