Raforkuflutningskerfi og nýsköpun – Er framsýni tálsýn eða raunveruleiki.?

visir

Magnus Rannver Rafnsson

Magnús Rannver Rafnsson

Það er áhugavert stundum að skoða samtímann í ljósi fortíðar og framtíðar. Merkilegt hvernig sumum þjóðum auðnast að horfa til framtíðar á ákveðnum sviðum, athyglisvert hvernig öðrum sem þó búa við sambærileg og jafnvel betri lífsskilyrði tekst það ekki. Ég dáist til að mynda að því hvernig Danir sáu lengra en flestir á níunda áratug síðustu aldar í enduruppgötvun vindorku sem arðvænlegs endurnýjanlegs orkugjafa. Mörg þjóðríki feta nú sömu braut – elta hjörðina – en tekst misvel upp.

Einna merkilegast í þessari framsýni Dana er ekki bara það að þeir átti sig snemma á möguleikum vindorku tæknilega, heldur líka það að þeir gerðu sér grein fyrir að framsetning tækninnar og samspil við umhverfið hefur afgerandi þýðingu. Þá á ég ekki einvörðungu við tillitssemi við landslag og umhverfi heldur líka skilninginn á því hvernig akkúrat það hefur áhrif á hagræna þætti. Sérstaklega flott er það hvernig þessi nálgun við lausn á flóknu umhverfismáli endurspeglast við sjálfar bæjardyr Danmerkur og aðliggjandi þjóðvegi.

Bæjardyr Danmerkur
Fyrir nokkrum árum ferðaðist ég ásamt fjölskyldu frá Kaupmannahöfn upp eftir allri Danmörku á toppinn til Skagen í norðri og aftur suður, þetta er fjölfarin leið. Þá þegar var ég meðvitaður um þessi brautryðjendaverk danskrar verkfræði og augun því sífellt leitandi í landslaginu. Mér til undrunar var lítið að sjá, en þó inn á milli vindmyllu-hnyppi á stangli hér og þar inni í landslaginu, þar sem örfáar vindmyllur hverju sinni gerðust hluti af landslagi, en tóku það aldrei yfir. Alveg einstaklega fyrirferðarlítið og vel hugsað – ekki tilviljun. Jafnvægi er eitt af lykilorðunum sem gæti átt vel við hér. Þegar græðgin nær völdum, breytist þessi fallega sveitasæla í hryllingsmynd. Jafnvægið sem Danir hafa sýnt að hægt er að ná fram í samspili nútímatækni og náttúru er þá horfið og sveitin er yfirtekin af öskrandi vindtúrbínum í tugatali. Allt er undirlagt og kaffært í massa. Um þetta eru nú þegar mörg dæmi víða.

framtidVið eina aðflugsbrautina á Kastrup standa hvítar vindmyllur í bláu hafi og mynda einfalda bogadregna línu sem fellur eðlilega að aðflugslínu flugbrautar. Einstaklega flott táknræn mynd – ekki tilviljun. Hvít vindmylla á hvítum stofni er ein sterkasta táknmynd hreinnar endurnýjanlegrar orku í heiminum í dag – heldur ekki tilviljun. Flugfarþegar fá oft góðan tíma í aðfluginu til að skoða þennan tímamóta afrakstur tæknilegrar framsýni gaumgæfilega. Og þeir sem almennt eiga leið um þessar slóðir í bátum og flugvélum komast vart hjá því að taka inn jákvæða, en sanna, ímynd af tækniþekkingu Dana á þessu sviði.

Það hefur vafalaust kostað sitt að komast á þennan stað, ekki síst glíman við sérhagsmunaöfl og niðurrifsseggi, sem með upphrópunum um tálsýn og blekkingar standa í vegi fyrir framþróun, með persónulega hagsmuni að leiðarljósi. Slíkir menn finnast auðvitað í Danmörku eins og á Íslandi, en Danir virðast hafa lag á að velja framfarir fyrir heildina umfram sérhagsmunagæslu fyrir fáa. Í dag hygg ég að Danir uppskeri á þessu sviði sem aldrei fyrr, jafnvel þótt aðrar stærri þjóðir hafi tekið við keflinu í frekari þróun tækninnar. Þetta var framsýni, er raunveruleiki og engin tálsýn.

Bæjardyr Íslands
Á meðan flugfarþegar sem ferðast um Kastrup geta dáðst að framsýnni og umhverfisvænni mannvirkjagerð í aðfluginu, bíður flugfarþega sem ferðast um Flugstöð Leifs Eiríkssonar talsvert annar raunveruleiki; háspennufrumskógur. Þeirra bíður nefnilega hrúga af stálmöstrum og stauraflækjum sem byggja á lausnum frá síðustu öld, yfir tugi og hundruð kílómetra ef fer sem horfir. Þessi upplifun byrjar líka strax í aðfluginu – alveg eins og þegar flogið er til Kastrup – en heldur svo áfram svo gott sem viðstöðulaust, hvort sem ekið er norður eða suður, yfir hálendið, Sprengisand eða bara til Reykjavíkur; massi af gráu stáli sem marserar í þráðbeinum takti yfir allt og alla. Þetta ætlum við að bjóða okkur sjálfum upp á og vinum okkar ferðamönnunum. Þetta er okkar framsýni við uppbyggingu raforkuflutningskerfis framtíðarinnar. Og við ætlum að minna gesti Íslands á það næstu áratugina hvar við stöndum í þessum efnum, bæði þegar þeir koma til landsins og þegar þeir yfirgefa það. Hver ætli eigi heiðurinn af þessu?

Þegar ég sé fyrir mér þessa sviðsmynd sem Landsnet mótar nú fyrir okkur af mikilli elju – ekki síst í réttarsölum – og ber hana saman við þá dönsku, þar sem vindmyllur birtast eins og hvítir svanir á bláu vatni, veit ég að við erum á rangri leið í þessum efnum. Fölgrár hægryðgandi stauraskógur er það besta sem ríkisfyrirtækið Landsnet með alla sína 100 milljarða megnar að bjóða okkur upp á í dag – árið 2016. Og við eigum að fá að njóta þessa í 70 ár í það minnsta, hvert sem farið er.

Við hljótum að sjá að þessi aðferðafræði er ekki að ganga upp fyrir okkar samfélag, einokun og fákeppni gerir það aldrei.

Hvað er til ráða?

 

Heimild: Visir

Fleira áhugavert: