Bæjarstjórn Ölfus synjar vindorkugarð á Hafnarsandi – Fórna ekki ómetanlegu útsýni
Bæjarstjórn Ölfuss hefur synjað beiðni Arctic Hydro ehf. sem vildi fá að setja upp vindorkugarð á Hafnarsandi í landi sveitarfélagsins um þrjá kílómetra vestan við Þorlákshöfn.
Fulltrúar Arctic Hydro kynntu vindorkugarðinn fyrir bæjaryfirvöldum í Ölfusi 25. janúar. Í byrjun þessa mánaðar var síðan óskað eftir viðræðum um samning um rannsóknar- og nýtingarleyfi með tilliti til virkjunar vindafls á jörðinni Þorlákshöfn. Setja átti upp rannsóknarmastur til vindmælinga en síðan var markmiðið að setja upp tuttugu myllur sem myndu ná allt að 130 metra hæð með spaðana í hæstu stöðu. Samtals yrði vindorkugarðurinn 60 MW.
Bæjarstjórnin segist ekki tilbúin til að ganga til samninga við Arctic Hydro af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi sé umrætt svæði skipulagt fyrir annan iðnað. Þar er vísað í áform um að flytja fiskþurrkun fyrirtækisins Lýsis út fyrir bæinn.
„Það er mikil ásýnd sem fylgir svona mannvirkjum, sér í lagi þegar verið er að tala um margar myllur,“ segir Gunnstein R. Ómarsson, bæjarstjóri Ölfuss, sem undirstrikar þó að ekkert vísindalegt sé á bak við þessa afstöðu. „Þetta á sér bakgrunn í orðræðu við þá aðila sem eru að standa í uppbyggingu í ferðaþjónustu,“ útskýrir hann.
Þá segir bæjarstjórinn einnig hafa staðið í mönnum að ekki sé til lagarammi varðandi beislun vindorku á Íslandi. „Þetta er ekki niðurstaða til eilífðar en eins og ásýndin er á þetta núna treystir bæjarstjórnin sér ekki til að binda svæðið fyrir þetta,“ segir hann.
Ekki náðist í Skírni Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóra Arctic Hydro, í gær en á heimasíðu fyrirtækisins kemur fram að það vinni nú að tveimur öðrum verkefnum; annars vegar að undirbúningi 20 til 30 MW vindorkugarðs í landi Butru og Guðnastaða í Austur-Landeyjum og hins vegar að 5,2 MW virkjun í Hólsá og Gönguskarðsá með tengingu til Akureyrar.
„Félagið ætlar sér að vera leiðandi einkaaðili á sviði raforkuframleiðslu á Íslandi enda eru gífurleg tækifæri til staðar á Íslandi fyrir félag eins og Arctic Hydro með tilheyrandi tækifærum og möguleikum fyrir eigendur orkuauðlinda,“ segir á heimasíðu Arctic Hydro.
Heimild: Vísir