Endurskilgreina þarf vatnsréttindajarðir
Vantar fordæmi
Hörður Arnarson telur að það vanti fordæmi þegar kemur að álagningu fasteignagjalda á landsvæði eins og þau sem um ræðir. Nýverið féll í Hæstarétti dómur þar sem vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar eru tekin inn í fasteignamat þess lands sem Landsvirkjun á og nýtir. Landspilda úr landi Laugarvalla á Fljótdalshéraði er það svæði sem einna helst um ræðir. Landsvirkjun telur sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs mismuna fyrirtækinu með þeirri álagningu sem ákvörðuð var að leggja á landið. Það falli í C-flokk enda túlkar sveitarstjórnin það sem svo að nýting landsins hvíli á skipulagi þar sem viðkomandi land sé nýtt til orkuvinnslu. Þar með lítur sveitarfélagið á jarðeignina sem hluta af iðnaðarsvæði en ekki landbúnaðarsvæði, sem annars fæli í sér að álagning væri í samræmi við A-flokk fasteignagjalda.
Um jarðeignaréttindi á almennri lóð er að ræða að mati Landsvirkjunar ef marka má viðbrögð þeirra við ákvörðun sveitarfélagsins um álagningu, en málið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi í síðustu viku. Að mati sveitarfélagsins fellur landið ekki að öðrum flokkum en þeim sem á við iðnaðarstarfsemi og skýrir það álagningarprósentuna 1.65% af fasteignamatsgrunninum, sem er 2.3 milljarðar króna. Slík gjaldtaka skilar um 28 milljónum króna til sveitarfélagsins. Landsvirkjun telur álagningarprósentuna eiga að vera 0,5% en sú álagning fæli í sér gjaldtöku í kringum 8 milljónir króna. Það eru engir aðrir eigendur að vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar heldur en Landsvirkjun.
Málinu skotið til úrskurðarnefndar
Að mati Harðar Arnarsonar hefur vantað fordæmi um það á hvað álagningin leggst og eins hversu há álagningarprósentan verði. Hann kallar eftir því að þau atriði verði skýrð hjá úrskurðarnefndum. Vatnsréttindi á jörð sé ekki fasteign af einhverri ákveðinni tegund sem miða megi gjöldin við. Hörður telur að það væri eðlilegast að búa til nýjan gjaldflokk. Magnús Þór Gylfason yfirmaður upplýsingasviðs Landsvirkjunar segir fyrirtækið muni skjóta ákvörðun sveitarfélagsins um álagningu til yfirfasteignamatsnefndar enda getur hún haft umtalsverða þýðingu síðar við skattlagningu sambærilegra rétttinda um allt land.
Forsaga málsins er sú að Þjóðskrá Íslands taldi að meta ætti og skrá vatnsréttindi jarða og leggja á þau fasteignagjöld. Landsvirkjun vildi hnekkja þeirri ákvörðun. Héraðsdómur hafnaði kröfu Fljótsdalshéraðs og Þjóðskrár Íslands um að vatnsréttindin yrðu metin en málið fór fyrir Hæstarétt og vann Fljótsdalshérað málið á því dómstigi. Var það tímamótadómur að mati Harðar Arnarssonar forstjóra Landsvirkjunar. Vatnsréttindi Landsvirkjunar í sveitafélaginu eru um 75% allra vatnsréttinda við Kárahnjúka sem Þjóðskrá mat nýverið. 25% eru í Fljótsdalshreppi.
Heimild: RÚV