Vesturströnd Noregs – Hætt við vindmyllugarð vegna fugla og fiska

ruv

vindmyllur

Ekkert verður úr áformum um að byggja gríðarstóran vindmyllugarð undan vesturströnd Noregs. Vindmyllurnar hefðu framleitt græna raforku fyrir 30 til 35 þúsund heimili. Ekkert verður þó af því vegna umhverfissjónarmiða.

Til stóð að vindmyllurgarðurinn næði yfir um 40 ferkílómetra hafsvæði við Siragrunnen. Það er undan vesturströnd Noregs, miða vegu milli Kristjánssands og Stafangurs. Vindmyllurnar yrðu um 30 talsins og allt að 180 metrar á hæð.  Þær myndu framleiða 780 gígawattsstundir á ári – nóg til að sjá 30 til 35 þúsund heimilum fyrir raforku. Til samanburðar er orkuvinnslugeta Kárahnjúkavirkjunnar 4.800 gígavattsstundir á ári.

Norska dagblaðið Aftenposten greinir frá því að stjórnvöld hafi endanlega ákveðið að ekki verði af byggingu vindmyllugarðsins. Haft er eftir ráðherra umhverfis- og loftslagsmála, Vidari Helgesen, að vissulega sé margt gott við vindorku. Eftir að hafa farið yfir álit þeirra stofnanna sem málið snertir, sé niðurstaðan þó sú að kostirnir við vindorku á Siragrunnen nái ekki að vega upp á móti þeim skaðlegu áhrifum sem vindmyllugarðurinn hefði á farfugla, gotsvæði fiskitegunda og landslag við ströndina.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: