Orkukostnaður heimila á köldum svæðum lækkaði um áramótin 2015-2016

ov

peningar

Breytingar á verðskrám OV og niðurgreiðslum ríkisins um áramót

Verðskrár OV fyrir flutning og dreifingu rafmagns hækka að meðaltali um tæp 4% í þéttbýli og tæp 8% í dreifbýli nú um áramótin. Reikningar heimila með rafhitun og kyntum hitaveitum lækka vegna aukinna niðurgreiðslna stjórnvalda. Verðskrá fyrir hitaveitur breytist ekki og verðskrá raforkusölu lækkar um 0,129 kr/kwh þar sem raforkuskattur fellur niður.

Nú um áramótin verða nokkrar breytingar á verðskrá OV fyrir flutning og dreifingu rafmagns og á niðurgreiðslum ríkisins til rafhitunar. Í dreifbýli hækkar verðskráin um tæp 8%, en í þéttbýli hækkar verðskráin um tæp 4% fyrir almenna notkun. Niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar hækka, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Jöfnunargjald á raforku hækkar, en dreifbýlisframlag helst óbreytt. Skattur á raforkusölu fellur niður. Breytingarnar hafa því mismikil áhrif á viðskiptavini fyrirtækisins, eftir því hvaða þjónustu þeir kaupa og ekki síður eftir því hvort um er að ræða viðskiptavini í þéttbýli eða dreifbýli.

Þéttbýli

Verðskrá flutnings og dreifingar raforku hjá OV í þéttbýli hækkar um 0,2 kr/kWst, en fastagjald er óbreytt. Þetta svarar til um 3,4% meðalhækkunar á verðskrá fyrir almenna notkun í. Hins vegar hækka taxtar fyrir ótryggða raforkudreifingu vegna hækkunar hjá Landsneti. Niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar í þéttbýli á veitusvæði OV hækka úr 4,02 kr/kWst í 4,70 kr/kWst. Þá fellur raforkuskattur 0,129 kr/kWh niður. Þannig lækkar t.d. árlegur orkukostnaður rafhitanotenda með 40.000 kWst ársnotkun um ca. 25.000.- kr.

Verðskrá hitaveitu breytist ekki en niðurgreiðslur til rafkyntra hitaveitna hækka úr 3,06 kr/kWst í 3,51 kr/kWst. Árlegur orkukostnaður hitaveitunotenda með 34.000 kWh hitaveitunotkun á ári og 6.000 kWh rafmagnsnotkun lækkar um ca. 23.500.- kr.

Dreifbýli

Verðskrá flutnings og dreifingar raforku hjá OV í dreifbýli hækkar um 0,7 kr/kWst, en fastagjald er óbreytt. Þetta svarar til um 7,4% meðalhækkunar á verðskrá fyrir almenna notkun í dreifbýli. Niðurgreiðslur ríkisins til rafhitunar í dreifbýli á veitusvæði OV hækka úr 5,40 kr/kWst í 6,51 kr/kWst. Þá fellur raforkuskattur 0,129 kr/kWh niður. Þannig lækkar t.d. árlegur orkukostnaður rafhitanotenda með 40.000 kWst ársnotkun um ca. 18.500.- kr.

Í framangreindum verðdæmum hefur verið tekið tilliti til dreifbýlisframlags og jöfnunargjalds.

Þjónustugjöld hækka um 4%.

Jöfnunargjald. Samkvæmt lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku nr. 98 frá 9. júní 2004, með síðari tíma breytingum, hækkar jöfnunargjald 1. janúar 2016. Jöfnunargjaldið hækkar úr 20 aurum í 30 aura á kWst ef undan eru skildir taxtar fyrir ótryggðan flutning, en jöfnunargjald á þá hækkar úr 6,6 aurum í 10 aura fyrir kWst.

Dreifbýlisframlag. Dreifbýlisframlag úr ríkissjóði sem fjármagnað er með jöfnunargjaldi helst óbreytt, 2,17 kr/kWh í dreifbýli.

Þann 1.apríl 2016 má búast við frekari jöfnun á verði raforkudreifingar í dreifbýli. Jafnframt er þess vænst að kostnaður við flutning og dreifingu raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis verði þá að fullu niðurgreiddur. Nú um áramót náðist sá áfangi að 90% þessa kostnaðar er niðurgreiddur.

 

Heimild: Orkubú Vestfjarða

Fleira áhugavert: