Vilja skrúfa fyrir Niagara-fossa
Hugmyndir eru uppi um að þurrka upp hluta af Niagara-fossum tímabundið til að liðka fyrir viðgerðum á brúm yfir ána. Það yrði aðeins í annað skiptið sem slíkt yrði gert en síðast fundust tvö lík og mikið magn af smámynt í árfarveginum.
Nokkrar aldagamlar brýr sem tengja bæinn Niagara Falls við þjóðgarð sem stendur á hólma úti í ánni eru viðgerðar þurfi. Því hafa garða- og samgönguyfirvöld í New York-ríki sett fram hugmyndir um að veita vatni frá þeim hluta árinnar og út í kanadíska hluta fossanna. Það ástand myndi vara í nokkra mánuði.
Árið 1969 var ánni veitt annað í fyrsta skipti frá bandaríska hluta farvegar síns í tæpa fimm mánuði. Fjöldi ferðamanna kom til að fylgjast með því þegar fossinn var þurrkaður upp. Þá kom í ljós mikið magn smámynta sem ferðamenn höfðu kastað í ána í gegnum tímans rás.
Einnig fundust tvö lík, annað af manni sem kennsl voru síðar borin á en einnig af konu sem aldrei kom í ljós hver var. Það kom íbúum á svæðinu engu að síður á óvart að fleiri lík hefðu ekki fundist. Það sé vel þekkt að fjöldi manns hafi bundið enda á líf sitt í fossunum.
Verði hugmyndirnar um að þurrka fossana upp að veruleika gæti það átt sér stað frá ágúst til desember og sjá sumir fyrir sér að viðburðurinn gæti laðað að fjölda ferðamanna.
Heimild: Mbl