Sá dagur kann að vera í nánd að okkar ágæta jarðhitavatn verði aldrei tekið beint inn á hita- eða neysluvatnskerfi

mbl

Apríl 2008

varmaskiptar

Varmaskiptar og lækkun hita á kranavatni

Á kynningarfundi Tengis og Redan nýlega var komið með afgerandi hætti inn á hættuna af of heitu kranavatni. Hitinn á vatninu er grafalvarlegt mál, af heita vatninu, sem er okkar miklu gæði, hafa ekki aðeins margir hlotið hrikaleg brunasár, það hafa einnig orðið dauðaslys af völdum þess.

Herdís L. Storgaard hjá Forvarnahúsi Sjóvá hélt kröftuga tölu um þessa miklu vá og voru það sannarlega orð í tíma töluð. Þetta forvarnarstarf tengist beint því sem verið var að kynna á fundinum; tengigrindum þar sem búið er að setja saman alla þá tæknihluti sem þarf til að stýra lagnakerfum, þar á meðal að lækka hita á kranavatni. En eins og áður hefur verið margoft bent á þarf að skoða allar hliðar málsins áður en ákveðið er hvernig lækka skuli hitann. Það kann að vera einföld leið að setja upp eina góða tengigrind með varmaskipti og hita upp kalt vatn með heita vatninu, þá er hægt að ráða því hve heitt vatnið verður. En þá kemur spurningin um leiðslurnar, úr hvaða efni eru þær? Í húsum byggðum eftir aldamót er þetta í fæstum tilfellum vandamál, leiðslurnar eru nær alltaf úr vönduðum plaströrum eða ryðfríu stáli. En í eldri húsum er mjög líklegt að leiðslurnar séu úr galvaniseruðum stálrörum og þá vandast málið. Ef keypt er tengigrind og upphitað kalt vatn sent inn í slíkar leiðslur má búast við að í þeim hefjist tæring, varnarhúðin úr zinki skemmist og síðan rörin, vatnið verður óhreint.

Jarðhitarannsóknir á ÍslandiÞá kom upp sú hugmynd að í stað þess að hita upp kalt vatn væri kalda vatnið notað til að kæla hitaveituvatnið sem eftir sem áður rynni inn í lagnir og tæki. Þetta hefur verið gert og á fræðslufundi Tengis og Redan var kynnt tengigrind sem þessi fyrirtæki hafa þróað í samvinnu við verkfræðistofuna Verkvang. Vissulega er þetta gott framtak og mun koma að notum í þeim tilfellum sem það á við. En að sjálfsögðu er það á vissan hátt neikvæð lausn að lækka hitann á vatninu með kælingu því að þar tapast talsverður varmi og orka. Kalda vatnið, sem kældi heita vatnið, hefur hitnað og rennur síðan út í skólplögn engum til gagns. Þá má einnig spyrja hvort þetta sé hollt fyrir skólplagnir, að fá í sig heitar gusur. Það er einnig ástæða til að benda á það að nú býður fyrirtæki á Íslandi svissneska lausn, sem er hreinsun og húðun skemmdra galvaniseraðra lagna. Ef slíkt er gert er ekkert því til fyrirstöðu að hita upp kalt vatn með varmaskiptum.

En þá er komið að því að skyggnast inn í framtíðina. Sá dagur kann að vera í nánd að okkar ágæta jarðhitavatn verði aldrei tekið beint inn á hita- eða neysluvatnskerfi. Þá verði í öllum tilfellum sama vatnið stöðugt á hitakerfunum hitað upp í gegnum varmaskipti og neysluvatnið hitað upp á sama hátt.

Þá vandast málið sannarlega því varmaskiptar eru ekki þau afburðatæki sem margir vilja vera láta. Þó er kannski ekki réttmætt að segja þetta og þarna er líklega verið að hengja bakara fyrir smið. Það er í sjálfu sér ekki varmaskiptirinn sem er sökudólgurinn heldur okkar marglofaða íslenska jarðhitavatn með sinni ríkulegu en mismunandi efnasamsetningu. Þessi efni setjast innan á plötur varmaskiptanna og með tímanum daprast varmaleiðni þeirra umtalsvert sem kallar á aukna heitavatnsnotkun til að hita lagnakerfin.

Það er tæpast von til að allir séu með það á hreinu hvað varmaskiptir er eða hvernig það tæki er smíðað. Varmaskiptir er þétt röð af plötum úr ryðfríu stáli þar sem hitaveituvatnið rennur um aðra hvora rás en kalda vatnið um hina. Þannig hitnar kalda vatnið en hitaveituvatnið kólnar, það skilar varmanum í gegnum plöturnar án þess að heitt og kalt vatn blandist. Gallinn er sá að allir innfluttir varmaskiptar eru heillóðaðir, það er ekki hægt að opna þá til að hreinsa plöturnar.

En sú var tíðin að alla varmaskipta var hægt að taka sundur og hreinsa plöturnar, þær voru ekki lóðaðar saman heldur voru pakkningar með köntunum sem voru endurnýjaðar um leið og varmaskiptirinn var hreinsaður, varmaskiptirinn boltaður saman.

Eigum við ekki að snúa við og taka upp gömlu, góðu nýtnina, nota hreinsanlega varmaskipta? Ef sú almenna varmaskiptavæðing verður, sem að framan var spáð, þá væri það verðugt verkefni ef við hérlendis tækjum almennt í notkun gömlu góðu gerðina sem hægt er að hreinsa. Notkun þeirra yrði svo almenn að fyrirtæki gætu sérhæft sig í hreinsun, komið upp skiptimarkaði, skipt um varmaskipti í tengigrind án þess að trufla lagnakerfin að ráði, farið með þann sem áður var í tengigrindinni, hreinsað hann og svo koll af kolli.

Er ekki þarna verðugt viðfangsefni fyrir Tengi og Redan, að bjóða tengigrindur með endurnýjanlegum varmaskiptum?

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: