Græna raforkan gullkista Norðurlandanna
Græn raforka gæti orðið næsta stóra útflutningsævintýri Norðurlandanna að mati samtaka raforkufyrirtækja annars staðar á Norðurlöndunum, sem reyna nú í sameiningu að tryggja bætt aðgengi að evrópskum markaði gegnum þýska flutningskerfið. Á evrópskan mælikvarða er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hátt í öllum ríkjunum og nýlega gaf Alþjóðaorkumálastofnunin það út að Norðurlöndin væru eins konar grænt orkuver Evrópu til framtíðar. Að mati norrænu samtakanna er græna raforkan því sannkölluð gullkista Norðurlandanna og nauðsynlegt að efla flutningskerfin til að hægt sé að koma henni á markað, t.d. með aukinni uppbyggingu sæstrengja.
Evrópusambandið hefur lengi haft stefnu um sameiginlegan markað með raforku en víðast hvar vantar töluvert upp á í þeim efnum. Norðurlöndin fjögur – Noregur, Danmörk, Svíþjóð og Finnland – hafa hins vegar verið þarna í fararbroddi með öflugum tengingum sín á milli og raunverulegum samnorrænum raforkumarkaði. Þá hafa verið lagðir sæstrengir frá Norðurlöndum til annarra Evrópuríkja og fleiri slíkir eru í bígerð, m.a. frá Noregi til Bretlands.
Norðurlöndin hafa hins vegar árum saman kvartað undan lélegum aðgangi að þýskum raforkumarkaði sökum veiks flutningskerfis raforku í Norður-Þýskalandi og takmarkaðs aðgangs að því. Hafa samtökin hvatt stjórnvöld sinna ríkja til að hlutast til um bættan aðgang, jafnframt því að beina slíkum óskum til evrópskra eftirlitsaðila. Takmarkað aðgengi að þýskum raforkumarkaði kostaði Norðurlöndin um 500 milljónir danskra króna í töpuðum útflutningstekjum á liðnu ári, eða um 9,5 milljarða ÍSK, miðað við vannýtta flutningsgetu ríkjanna til Þýskalands.
Á Íslandi og í Noregi er hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa um 100 prósent í raforkuvinnslu. Þetta hlutfall er um 62% í Svíþjóð, 43% í Danmörku og 31% í Finnlandi. ESB-meðaltalið er rúm 25 prósent.
Heimild: Vísir