Höfin – magn af plasti verður meira en fiska árið 2050

hvatinn

hofin plast

Smella á mynd til að stækka

Höf heimsins eiga ekki sjö dagana sæla þessi misserin. Ekki nóg með það að þau séu að súrna og hitastig þeirra að hækka vegna hlýnunar jarðar heldur ógnar plastúrgangur þeim líka. Samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu mun magn af plasti verða meira en fiska árið 2050 ef ekkert er að gert.

Skýrslan er á vegum Ellen MacArthur Foundation en samkvæmt henni er aðeins um 5% alls plasts endurunnið. Hin 95% eru ekki endurunnin, 40% plasts er urðað og þriðjungur plastsins sem við notum endar í sjónum. Til þess að átta sig á því hversu mikið plast er um að ræða samsvarar magnið því að einn ruslagámur væri tæmdur út í sjóinn á mínútu fresti.

Plast sem endar í hafinu hefur margvíslegar afleiðinega fyrir villt dýr sem geta ýmist gleypt það eða fest sig í því. Til að bæta gráu ofan á svart er framleiðsla á plasti síður en svo umhverfisvæn og krefst notkunar á jarðefnaeldsneyti og þar með aukinni losun gróðurhúsalofttegunda.

Höfundar skýrslunnar leggja áherslu á að breyta þurfi því hvernig plast er framleitt og hvernig því er fargað. Þetta er hægara sagt en gert en meðal þeirra vandamála sem við stöndum frammi fyrir er að vegna lækkandi olíuverðs verður dýrara að endurvinna plast á meðan markaður fyrir plasti eykst vegna fólksfjölgunar og stækkandi hagkerfa. Áætlað er að eins og staðan er í dag séu framleidd um 311 mílljón tonn af plasti á ári og er talið að talan muni fjórfaldast til ársins 2050. Það er því ljóst að eitthvað verður til bragðs að taka ef við viljum ekki að höfin hreinlega fyllist af plasti.

 

Heimild: Hvatinn

Fleira áhugavert: