Nýtt Hótel á Suðurlandsbraut 18
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa auglýst nýtt deiliskipulag lóðarinnar á Suðurlandsbraut 18. Breytingin felur í sér viðbyggingu og heimild til að hafa hótel í húsinu.
Hafa eigendur þess látið teikna mynd af byggingunni eftir stækkun. Á henni er gert ráð fyrir að hótel sé í húsinu, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Samkvæmt fasteignaskrá er húseignin í eigu eignarhaldsfélagsins Festis. Samkvæmt fyrirtækjaskrá Creditinfo er það félag í 100% eigu hollenska félagsins SMT Partners B.V. Fjallað var um félagið SMT Partners B.V. í Viðskiptablaðinu hinn 27. janúar 2010 og var umfjöllunarefnið endurskipulagning á fjárhag Samskipa með viðskiptabönkum félagsins. „Niðurstaða liggur fyrir og hefur SMT (Samskip Management Team) Partners, sem er í félag í eigu Ólafs Ólafssonar kaupsýslumanns og stjórnenda Samskipa, eignast tæplega 90% í Samskipum með því að leggja til aukið hlutafé,“ sagði í fréttViðskiptablaðsins.
Félagið Festir á fleiri fasteignir. Má þar nefna Krókháls 11 en Bílaumboðið Askja er þar nú með aðsetur. Þá á Festir um sjö þúsund fermetra fasteign í Kjalarvogi 10 við Sundahöfn. Þessar tvær eignir, ásamt Suðurlandsbraut 18, voru með yfirlýsingu um eigendaskipti færðar úr félaginu Festingu til Festis.
Félagið Festing er nú skráður eigandi húseignarinnar Kjalarvogs 7-15 en þar eru höfuðstöðvar Samskipa.
Heimild: Mbl