Vindmylla knýr innsiglingarljósin á Höfn
Hornafjörður er í miklu nábýli við jökla og jökullón og getur bráðnun valdið miklum breytingum á næstu árum. Sveitarfélagið varð fyrst til að gera áætlun um að minnka losun gróðurhúsalofttegunda með samningi við Landvernd og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Björn Ingi Jónsson bæjarstjóri segir að undanfarin tvö ár hafi sveitarfélagið haldið strangt losunarbókahald. „Inn í þann pakka höfum við verið að skrá niður alla ekna kílómetra, hve mikið við tökum af bílaleigubílum, hversu mikið við erum að nota flugvélar, hversu mikil orka fer í að kynda upp húsin okkar, hvað er mikið sorp að fara frá okkur. Eiginlega alla þætti sem geta haft áhrif á losun gróðurhúslofttegunda út í andrúmsloftið.“
Leysir dísilrafstöð af hólmi í eitt ár
Þessi syndaregistur verða svo notuð til að búa til áætlun um að minnka losun. „Þó að það sé fyrir þessu haft að taka þetta saman þessi gögn að þegar maður fer að skoða þau þá kemur ýmislegt í ljós sem þarf ekki að vera neitt erfitt eða kostnaðarsamt að gera til þess að minnka.“
Þannig var það með vindmylluna sem nú lýsir bátum leið í gegnum innsiglinguna til hafnar. Hún kostaði 3 milljónir upp komin, jafn mikið og kostaði að reka mengandi díslirafstöðina sem hún leysir af hólmi, í eitt ár.
„Þetta er sam sagt sandrifið sem afmarkar annan hlutann af innsiglingunni til Hornafjarðar og á þessu sandrifi eru innsiglingarljósin fyrir bátana sem eru að koma inn til hafnar. Þarna er ekkert rafmagn og rafstöðin sem sagt þjónar þeim tilgangi að halda rafmagni í ljósunum yfir nóttina.“
Hornafjörður mun finna fyrir loftslagsbreytingum, jöklar hopa og mynda ný lón og bráðnun veldur því að landið rís.
„Svæðið sem sveitarfélagið Hornafjörður byggir á er í rauninni á hækka um 1,3 sentimetra á ári. Til dæmis frá veitulagnir á Höfn eru lagðar eftir ákveðnum reglum með ákveðinn halla og landið er ekki að rísa jafnt þannig að þá getum við farið að horfa á vandamál í rennsli fráveitu. Það snúist við í rauninni vatnshalli í lögnum.“
Heimild: RÚV