Hvað kostar í sund ? Yfir 100 prósenta verðmunur..
Sundlaugarferð fjögurra manna fjölskyldu sem er ekki með nein afsláttarkort er dýrust í Árborg, þar sem borga þarf 2.100 krónur fyrir tvo fullorðna og tvö börn, en ódýrust á Akranesi, þar sem aðeins þarf að greiða 856 krónur. Þetta er meðal niðurstaðna í verðkönnun ASÍ á sundlaugum í fimmtán fjölmennustu sveitarfélögum landsins.
Skagamenn rukka 428 krónur fyrir sundferðir fullorðinna en börn fá frítt í sund. Sundferðin er næstódýrust í Hafnarfirði, kostar 1.380 krónur. Fullorðnir eru rukkaðir um 550 krónur en börn um 140 krónur.
Hvað kostar í sund?
Fullorðnir
|
Börn
|
2 og 2
|
|
---|---|---|---|
Árborg | 900 | 150 | 2100 |
Reykjavík | 900 | 140 | 2080 |
Skagafjörður | 700 | 300 | 2000 |
Akureyri | 750 | 200 | 1900 |
Fjarðabyggð | 700 | 200 | 1800 |
Ísafjörður | 590 | 300 | 1780 |
Fljótsdalshérað | 600 | 270 | 1740 |
Kópavogur | 700 | 150 | 1700 |
Reykjanesbær | 700 | 150 | 1700 |
Mosfellsbær | 650 | 150 | 1600 |
Vestmannaeyjar | 600 | 190 | 1580 |
Garðabær | 600 | 150 | 1500 |
Seltjarnarnes | 600 | 120 | 1440 |
Hafnarfjörður | 550 | 140 | 1380 |
Akranes | 428 | 0 | 856 |
Það kostar rúmlega tvöfalt meira að fara í sund á þremur dýrustu stöðunum en þeim ódýrasta, sé borgað fullt gjald.
Flest sveitarfélögin bjóða upp á afsláttarkjör ef keyptir eru miðar eða árskort. Tíu miða kort fullorðinna eru dýrust í Kópavogi (4.900 krónur), á Ísafirði (4.700 krónur) og á Akureyri (4.600 krónur) en ódýrust í Mosfellsbæ (3.700 krónur), Reykjanesbæ (3.710 krónur) og Hafnarfirði (3.760 krónur).
Dýrustu árskortin fást á Fljótsdalshéraði þar sem þau kosta 35.700 krónur en ódýrustu á Ísafirði, þar sem þau kosta 16.500 krónur.
Árskort barna kosta frá 3.100 krónum á Ísafirði upp í 15.400 krónur á Fljótsdalshéraði.
Heimild: RÚV