Sextugur karlmaður brenndist lífshættulega þegar hann fékk yfir sig allt að 80° heitt vatn í sturtu
Júní 2007
Búinn að berjast fyrir lífi sínu allan þennan tíma
LÍFSVILJINN er svo mikill að það er ótrúlegt hvað hann er á góðum batavegi,“ segir Sigrún Ómarsdóttir sem kom að föður sínum, Ómari Önfjörð Kjartanssyni, hinn 15. maí 2007 í íbúð hans í Hátúni 10B, húsi Brynju – hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Þá lá heitt vatn yfir allri íbúðinni og fram á gang en Ómar hafði sjálfur komist upp í rúm, skaðbrenndur. Hann er á batavegi og liggur á brunadeild LSH.
Sigrún segir kaldhæðnislegt til þess að hugsa að sama dag og faðir hennar brenndist hafi komið inn um lúguna hjá flestum á höfuðborgarsvæðinu bæklingur þar sem boðuð var herferð gegn brunaslysum af völdum heits neysluvatns. „Ég veit ekki hvernig það er í öðrum íbúðum í húsinu en það var alla vega ekki hitastillir hjá honum,“ segir Sigrún. Sér hafi í raun brugðið þegar hún sá hvers kyns blöndunartæki eru á baðherberginu. Hitinn er stilltur þannig að blanda þarf heita og kalda vatnið. Lítið má út af bregða til að 80° heitt vatnið sturtist yfir. „Ég get ímyndað mér hversu hræðilegt hefur verið að vera í sturtunni. Hann situr þar í stól frá Tryggingastofnun og þarf að snúa upp á sig til að skrúfa frá og fyrir, auk þess að hann lokar klefanum.“
Henni þykir ótrúlegt að í húsi ÖBÍ skuli ekki vera betri öryggisbúnaður fyrir heita vatnið, og vonast til að slysið verði til þess að öryggisatriði verði skoðuð á þeim stöðum þar sem þess gerist helst þörf.
Djúp annars og þriðja stigs brunasár
Talið er að Ómar hafi farið í sturtu á milli kl. 14 og 15 en um það leyti var Sigrún í húsinu, á fundi með félagsráðgjafa og Heimaþjónustunni um önnur úrræði fyrir föður sinn. Að fundi loknum fór hún að íbúðinni en rétt á undan var starfsmaður Heimaþjónustunnar, sem hafði setið fundinn. Sigrún sagði það í raun heppni að þau voru á staðnum en annars væri ekki víst að nokkur hefði komið að föður hennar fyrr en að kvöldi.Aðkoman var hræðileg og óvíst hversu lengi Ómar var undir heitu vatninu. Hann hlaut djúp annars og þriðja stigs brunasár á um 20% líkamans – en það tekur 70° heitt vatn eina sekúndu að mynda djúpan annars stigs bruna. Brunasárin jafnast á við að hraustur ungur maður brennist á um 60% líkamans.
Ómar lá á gjörgæsludeild LSH eina nótt og var í kjölfarið fluttur á brunadeild. Fjórum dögum eftir að slysið varð komst sýking í sár hans og segir Sigrún hann hafa barist fyrir lífi sínu með ógnarkrafti. „Hann er illa brunninn og það þarf krafta til að laga það, burtséð frá því að fá sýkingu ofan í sárin. Hann er búinn að berjast fyrir lífi sínu allan þennan tíma.“
Engin úrræði fyrir hendi
Sigrún segir föður sinn hafa notið eins mikillar þjónustu og hægt er að bjóða upp á í Hátúni en tvær heimsóknir á dag frá Heimahjúkrun og ein frá Heimaþjónustunni dugi ekki til. Önnur úrræði eru vart fyrir hendi nema hvað hægt er að sækja um pláss á öldrunarstofnun, stofnunin þarf þá að sækja um undanþágu til heilbrigðisráðuneytisins.“Hann hefur alltaf dreymt um að fara á Hrafnistu í Hafnarfirði og næsta verkefni hjá fjölskyldunni er að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hann fái loks ósk sína uppfyllta,“ segir Sigrún sem hefur þegar farið á fund hjá forsvarsmönnum Hrafnistu en var tjáð að ekki væru teknir inn einstaklingar undir 67 ára aldri. Hún segist þó ekki hafa gefist upp og mun á næstunni óska eftir öðrum fundi.
Í hnotskurn
» Komur á LSH vegna brunaáverka voru 2.179 á árunum 2002-2006. Þar af voru 132 sem brenndu sig á heitu neysluvatni, 25 voru lagðir inn á brunadeild vegna sára sinna.
» Á þessu ári hafa tvö brunaslys komið upp í húsnæði Brynju – hússjóðs ÖBÍ, þar af annað afar alvarlegt.
» Orkuveita Reykjavíkur, Sjóvá og Landspítali – háskólasjúkrahús hleyptu nýverið af stað herferð til að fækka brunaslysum. Meðal annars er miðað að því að vekja umræðu um hitastýringu neysluvatns. Upplýsingar má finna á vefsíðunni www.stillumhitann.is.
Heimild: Mbl