Norðurturninn Smáralind – Er að klárast ( áhugavert myndband af mannvirkinu )
Framkvæmdum utanhúss við Norðurturninn við Smáralind fer senn að ljúka og er gert ráð fyrir verklokum í byrjun næsta árs.
Ríkharð Ottó Ríkharðsson, framkvæmdastjóri Nýs Norðurturns hf., segist finna fyrir miklum áhuga á húsnæðinu.
Húsið verður alls fimmtán hæðir sem hver um sig verður eitt þúsund fermetrar auk 370 fermetra á fimmtándu hæð. Á fyrstu og annarri hæð hússins verða verslana- og þjónusturými sem verða beintengd Smáralindinni. Samningar hafa verið gerðir við Reginn, móðurfélag Smáralindar, um leigu á verslunarhæðunum.
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segir að línurnar muni fljótlega skýrast og vísar til þess að 99 prósent útleiguhlutfall sé í Smáralind og svæðið því eftirsótt. Ekki sé þó hægt að segja meira á þessari stundu.
Þegar framkvæmdum verður lokið að utan verður húsnæðið tilbúið til innréttinga og Ríkharður vonast til þess að fyrstu leigutakar gætu komið inn á skrifstofuhæðirnar í byrjun næsta sumars.
Framkvæmdir innanhúss verða unnar í samstarfi við leigutaka. Ekki hefur verið gengið frá neinum leigusamningum en viðræður standa nú yfir.
Saga Norðurturnsins er nokkuð löng er byggingin stóð lengi hálfkláruð áður en stærstu kröfuhafar í þrotabú félagsins Norðurturn ehf. stofnuðu með sér félag og leystu til sín bygginguna. Framkvæmdir hófust á nýjan leik í ágúst 2013 en eigendur turnsins eru Glitnir, Íslandsbanki, Tryggingarmiðstöðin, Lífeyrissjóður Verkfræðinga og Hjúpur ehf, dótturfélags Byggingarfélags Gylfa og Gunnars, sem einnig sér um allar framkvæmdir.
Heimild: Mbl