Vaðalaheiðargöng – Gröftur ekki gengið betur í eitt og hálft ár

Rúv

Vaðlaheiðargöng

Gröftur í Vaðlaheiðargöngum er nú kominn aftur á fullt og afköstin eru eftir því. Í síðustu viku lengdust göngin um 58 metra, sem er það mesta síðan í maí 2014. Þó er enn unnið að hreinsun ganganna Fnjóskadalsmegin.

Heitt vatn hefur verið til vandræða Eyjafjarðarmegin en samkvæmt Facebook síðu Vaðlaheiðarganga, er útlit fyrir að mesti vatnshitinn sé nú að baki. Slíkt ætti að gera vinnuaðstæður enn bærilegri inni í göngunum, þó vel hafi gengið að ráða við hitann síðasta misserið.

Vaðalheiðargöng

Mynd: Rögnvaldur Már Helgason – RÚV

Í sumar fór mikil vinna í að þétta berg, til að vatn ætti ekki jafn greiða leið inn í göngin en auk þess til að fyrirbyggja að stór sprunga myndi opnast Eyjafjarðarmegin, líkt og gerðist Fnjóskadalsmegin. Af þeim sökum fór borgengið frekar hægt yfir og göngin lengdust aðeins um nokkra metra á viku.

Smám saman komst borgengið í betra berg og afköstin jukust að nýju. Um miðjan nóvember voru afköstin orðin ásættanleg, um 40 metrar á hverri viku. Meðalframvinda í gerð ganganna er 44 metrar á viku og á tímabili var hún komin niður í 14 metra. Besti árangurinn er hins vegar 96 metrar á viku.

 

Heimild: RÚV

Fleira áhugavert: