Byggja lúxusíbúðir á Laugavegi
Stefnt er að því að opna íbúðahótel í bakhúsi neðst á Laugavegi í Reykjavík í mars á næsta ári. Framkvæmdirnar fela í sér stækkun hússins og fjölgun hótelíbúða úr fjórum í átta.
Fyrirtækið Icewear á húseignina.
Um er að ræða bakhús með húsnúmerið Laugavegur 1. Það er á bak við eitt elsta verslunarhúsnæði Reykjavíkur. Félag í eigu Icewear hefur leigt hótelíbúðir í bakhúsinu.
Við framkvæmdirnar er bakhúsið endurbyggt. Kjallari hefur verið grafinn niður og verður þar verönd. Að auki er nú byggð 4. hæð ofan á húsið. Með henni bætast við 109,5 fermetrar og verður húsið 452 fermetrar.
Líka með íbúðir á Akureyri
Ágúst Þór Eiríksson, eigandi Icewear, segir framkvæmdirnar við bakhúsið kosta vel á annað hundrað milljónir króna. Hann segir verkefnið hluta af starfsemi Icewear.
„Við erum að byggja átta hótelíbúðir og reiknum með að opna 1. mars. Ég er þegar með þrjár íbúðir til útleigu á Akureyri. Þetta er því útvíkkun á starfsemi Icewear. Það er ekki lengur kjallari í bakhúsinu, enda grófum við niður á jafnsléttu.“
Staðsetningin er mjög góð og myndu 8 ríflega 50 fermetra íbúðir á þessum stað ekki kosta undir samtals 200 milljónum króna.
Ásgeir Þór segir mikil tækifæri í rekstri hótelíbúða í miðborg Reykjavíkur. Eftirspurnin sé mikil. Umræddar íbúðir verði í lúxusflokki. Hann segir einn starfsmann hafa verið ráðinn til að sinna bókunum og öðrum verkefnum. Svo bætist við þrif og annað sem tengist rekstrinum. Lyklamóttaka verður þar sem nú er minjagripaverslun í framhúsinu á Laugavegi 1. Þar verður opnuð Icewear-verslun. Fyrirtækið Icewear á framhúsið líka.
Framhúsið er skráð hjá Fasteignaskrá sem 336,5 fermetra verslun. Á sömu lóð er jafnframt umrætt 350 fermetra bakhús sem var byggt 1927. Bæði húsin tilheyra sömu lóð.
Samkvæmt Fasteignaskrá var húseignin Laugavegur 1 byggð árið 1827, nánar tiltekið framhúsið.
Hins vegar segir í bókinni Reykjavík: Sögustaður við Sund, eftir Pál Líndal að framhúsið hafi verið reist 1848 og er hér miðað við það ártal.
Margir kannast við verslunina Vísi sem er nú rekin í austari viðbyggingu við framhúsið. Þess má geta að nú eru 100 ára liðin síðan þeir Guðmundur Ásbjörnsson og Sigurbjörn Þorkelsson hófu þar verslunarrekstur og var sá síðarnefndi jafnan kenndur við Vísi.
Gamla húsið endurbyggt
Ásgeir Þór segir miðhúsið friðað, en það er elsti hluti framhússins. Viðbyggingar á einni hæð til vesturs og austurs séu það ekki. Hann segir standa til að rífa viðbyggingarnar og endurbyggja miðhúsið.
„Við eigum byggingarrétt upp á 1.350 fermetra [á lóðinni]… Hugmyndin er að endurgera húsið og byggja eina hæð í kjallara, gera verslun á tveimur hæðum og fara út í portið. Við höfum leyfi til þess að fara út í portið með verslunina,“ segir Ágúst Þór og tekur fram að þessi uppbygging sé á hugmyndastigi. Ætlunin sé að auka verslunarrými úr 260 í 660 fermetra.
Þessi hluti Laugavegar mun taka frekari breytingum þegar framkvæmdir við nýja glerbyggingu á Laugavegi 2-4 hefjast á næstunni.
Heimild: Mbl