Kvartað yfir tæringu í neysluvatnslögnum í nýlegum hverfum – Rannsókn hafin á vatnsrörum hjá RB
Febrúar 1996
KVARTANIR hafa borist Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins frá húseigendum í Grafarvogi og öðrum nýlegum hverfum í Reykjavík þar sem vart hefur orðið tæringar í neysluvatnslögnum og að vatn úr þeim væri brúnleitt.
Að sögn Einars Þorsteinssonar sérfræðings á lagnasviði RB hefur þess ótta orðið vart hjá fagmönnum að kaldavatnskerfi húsa í nýjum hverfum yrði komið í rúst eftir 15-20 ár. Hjá RB vissu menn ekki hvort þarna væri um að ræða „tímasprengju“ eða ekki, en sjálfur sagðist hann ekki telja möguleika á því í raun, heldur væri frekar um notkunarvandamál húseigenda að ræða.
Hjá RB eru nú í gangi rannsóknarverkefni þar sem annars vegar er verið að kanna ástand á galvaníseruðum neysluvatnsrörum fyrir kalt vatn og hins vegar tæringu á eirrörum fyrir hitaveituvatn. Fyrstu niðurstaðna úr þessum verkefnum er að vænta að ári liðnu.
Einar sagði að vísbendingar væru um að tæring í kaldavatnslögnum gæti stafað af því að þær lægju í heitu rými eða of nálægt heitavatnslögnum í húsum, og dæmi væru um að neysluvatnslagnir lægju fyrir ofan framrás að ofnakerfi með lítilli einangrun á milli.
Einar sagði að í slíkum tilvikum væru dæmi um hús þar sem vatn úr kaldavatnslögn væri orðið 60-70 gráða heitt eftir nóttina og þá væri vitað að vatnið væri farið að tæra rörið.
„Við vitum í sjálfu sér ekki hvort þetta er tímasprengja eða ekki. En það er athyglisvert að í fyrsta húsinu sem við fórum í til að prófa, sem var 10 ára gamalt hús í Grafarvogi þar sem við settum upp prófunargrind, kom í ljós, þegar var verið að taka í sundur kerfið til að koma grindinni inn á, að pípulagningarmaðurinn snéri í sundur inntakstenginguna vegna þess að hún var nánast búin af tæringu. Í því húsi var alveg ljóst að þar hefði farið að leka vatn innan mjög fárra ára. Mikið af svona skemmdum uppgötvast fljótt en aðrar valda skaða,“ sagði Einar.
Hvað varðar eirrör í heitavatnslögnum sagði Einar það þekkta staðreynd að súlfíð í hitaveituvatni æti kopar og rörin væru því að tærast. Hraðinn væri hins vegar ekki mjög mikill eða um hálfur millimetri af millimetra veggþykkt á 20 árum. Þá væri komin innan í rörin skán sem gæti brotnað úr við hitabreytingar og stíflað ventla og valdið vandamálum í hitakerfum.
Heimild: Mbl