Fjórir stórbrunar á Selfossi á fimm árum
Smella á mynd til að sjá frétt
Gríðarlegt tjón varð á Selfossi í fyrraköld þegar verksmiðjuhúsnæði Plastiðjunnar brann til kaldra kola. Um hundrað manns þurftu að yfirgefa heimili sín í nokkrar klukkustundir á meðan á slökkvistarfi stóð.
Þetta er langt frá því að vera í fyrsta skipti sem Selfyssingar verða fyrir barðinu á miklum eldsvoða. „Síðan 2011 líklega erum við búin að fá fjóra stóra bruna hérna í Gagnheiðina, sem er þetta iðnaðarhverfi hérna á Selfossi,“ segir Pétur Pétursson, settur slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu.
Fyrsti bruninn varð reyndar sumarið 2010. Þá kom upp eldur í trésmíðaverkstæðinu Selósi. Talið var að eldurinn hefði komið upp í lakkklefa fyrirtækisins. Mikið tjón varð í eldsvoðanum.
Í mars árið 2012 varð svo gríðarlegur eldsvoði í röraverksmiðjunni Seti. Iðnaðarhús fyrirtækisins brann til kaldra kola og tók skemmtistaðinn 800 bar með sér, en hann var í sömu byggingu. Eldsupptökin voru í tengikassa og tjónið hjólp á hundruðum milljóna.
Nú í sumar kviknaði aftur í hjá Seti þegar plaströr brunnu hjá fyrirtækinu. Forsvarsmenn fyrirtækisins sögðu kostnaðinn gríðarlegan. Rýma þurfti nærliggjandi hverfi. Tveir tíu ára gamlir drengir viðurkenndu að hafa kveikt eldinn í óvitaskap.
Og í gær brann svo Plastiðjan til grunna. Talið er að kviknað hafi í út frá rafmagni og hleypur tjónið á hundruðum milljóna.
Engum hefur orðið meint af í þessum fjórum eldsvoðum. En hvað skýrir svona marga eldsvoða á Selfossi á svona stuttum tíma?
„Ég held að það sé ekkert eitt. Ég held að þetta séu tilviljanir fyrst og fremst. Það er ekkert eitt sem skýrir þetta umfram annað,“ segir Pétur.
Bara bölvuð óheppni?
„Ég myndi segja það já. Bara bölvuð óheppni.“
Heimild: RÚV