Vaðalheiðargöng – Breytingar á rennsli í Nesá sem hefur séð tveimur bæjum í Fnjóskadal fyrir rafmagni í tæp níutíu ár

Rúv

Smella á mynd til að sjá frétt

Breytingar á rennsli í ánni

Á sem hefur séð tveimur bæjum í Fnjóskadal fyrir rafmagni í tæp níutíu ár þornaði nánast upp í haust. Bóndi á öðrum bænum segist tengja breytingar á rennsli í ánni við framkvæmdir vegna Vaðlaheiðarganga. Nú hefur verið lögð bæði hitaveita og rafmagn að bæjunum í fyrsta sinn.

Vatnsæð opnaðist í göngunum í apríl
Framkvæmdir í austurenda Vaðlaheiðarganga stöðvuðust í apríl síðastliðnum þegar vatnsæð opnaðist inn í göngunum. Þegar mest var streymdu þar 350 lítrar á sekúndu og á tímabili fylltust göngin af vatni. Bændur í Nesi skammt norðan við gangamunnann tóku eftir því í vor að vatnsmagnið í Nesánni, sem rennur fram hjá bænum, var minna en oft áður og í haust þurrkaðist áin upp á tímabili. Rennslisvirkjun er í ánni og hafa bændur í Nesi verið sjálfbærir með rafmagn í tæp níutíu ár. Sigurlína Hrönn Halldórsdóttir bóndi í Nesi segir að rennslisvirkjunin hafi verið, eftir því sem hún best veit, sett upp árið 1928.

„Í vor þegar að gatið myndast í göngunum hérna suðurfrá þá finnst okkur hérna svona í maí, júní verða sjáanleg minnkun á vatni hér í ánni. Svo bara seinni hlutann í október þegar að það fer að snjóa þá bara þornaði blessuð áin.“

Búið að tengja rafmagn og hita á bæinnVaðlaheiðargöng
Í framhaldi af því var ákveðið að tengja bæði rafmagn og hitaveitu til bæjarins og er það í fyrsta skipti frá því byrjað var að búa í Nesi sem bærinn tengist samveitunni. Sigurlína Hrönn segist ekki geta annað en tengt þetta við framkvæmdirnar í göngunum.

„Við höfum aldrei nokkurtíman lent í þessu og maður spyr sig af hverju núna? En það er eins og ég segi það eru ekki til neinar rannsóknir eða neitt um þetta þannig að þetta er bara tilfinning manna, og já þetta bara hlýtur að vera svona.„

Telur sig eiga rétt á bótum
Kostnaður vegna framkvæmdanna við að tengja bæinn við rafmagn og hitaveitu hleypur á milljónum og Sigurlína Hrönn telur að Vaðlaheiðargöng hljóti að vera bótaskyld í þessu máli. Stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga sagði í samtali við fréttastofu að málið væri í farvegi en vildi ekki tjá sig um það að öðru leyti að svo stöddu.

Sigurlína Hrönn segir viðræður vera í gangi við forsvarsmenn Vaðlaheiðarganga.

„Við erum í samningaviðræðum við þá og það er bara í ferli og við vonumst til að það leysist farsællega.„

 

Heimild: RÚV

 

Fleira áhugavert: