Sæstrengur gæti verið mjög hagkvæmur

Rúv

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar kom í Spegilinn

Smella á mynd til að heyra viðtalið

Sæstrengur gæti verið mjög hagkvæmur

Forstjóri Landsvirkjunar segir að flest bendi til þess að sæstrengur milli Íslands og Bretlands geti verið mjög hagkvæmur kostur. Vinnuhópur Breta og Íslendinga um sæstreng skilar niðurstöðum í apríl. Til greina kemur að tengja strenginn við Færeyjar.

Eftir heimsókn David Cammerons, forsætisráðherra Breta, er hafin vinna við að koma á fót vinnuhópi landanna tveggja sem á að fara í saumana á kostum og göllum þess að leggja rafstreng milli Íslands og Bretlands. Strengurinn yrði sá lengsti í heimi sinnar tegundar, 1000 til 1200 kílómetrar. Áætlað er að strengur milli Noregs og Bretlands, sem brátt verður lagður, verði sá lengsti fram til þessa eða um 750 kílómetrar. Talið er að hann muni kosta einn og hálfan til tvo milljarða evra eða allt að 280 milljarða króna. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar segir að íslenski strnegurinn gæti kostað 2 til 2,5 milljarða evra.

Vantar orku

Þegar Cameron var hér í síðustu viku lýsti hann yfir áhuga Breta á að kaupa orku héðan. En hvers vegna þessi áhugi? Hörður segir að meginskýringin sé sú að orkuauðlindir hér séu mjög verðmætar. Breta skorti einfaldlega orku
„Sérstaklega endurnýjanlega orku og stýranlega orku. Það eru í raun bara við og Norðmenn sem geta afhent þannig vöru,“ segir Hörður.

Bretar borga.

Bretar munu fjármagna lagningu sæstrengs ef hann verður lagður. Norðmenn hafa reynslu af sæstrengjum sem liggja yfir til Danmerkur og Hollands. Vinna er hafin við legningu sæstrengja bæði til Þýskalands og Bretlands. Hörður segir að rekstur norsku strengjanna hafi verið mjög arðbær bæði fyrir orkuframleiðendur og orkuflutningsfyrirtækin.

„Það er allt sem bendir til þess að þetta gæti verið afar hagkvæmt fyrir Ísland,“ segir Hörður.

Hækki ekki orkuverð til heimila

Hörður fer varlega í að nefna tölur vegna þess að skoða verði málið gaumgæfilega áður enn hægt sé að kveða endanlega upp úr um hvort framkvæmdin er hagkvæm. Hins vegar eru margir sem gagnrýna þessi áform harkalega. Tenging við Bretland muni leiða til hærra raforkuverðs. Hún muni svekkja samkeppnisstöðu iðnfyrirtækja og auka útgjöld heimilanna. Þá séu margir óvissuþættir um þróun orkuverðs á meginlandinu. Hörður segir hins vegar að á margan hátt ætti að vera betra að reka fyrirtæki á Íslandi með tilkomu sæstrengs.

Vinnuhópurinn, sem þeir Sigmundur Davíð og Cameron ákváðu að koma á laggirnar um sæstrenginn, á að skila niðurstöðum eftir hálft ár. Sigmundur gerir þann fyrirvara að sæstrengurinn megi ekki hafa áhrif á raforkuverð til heimila og fyrirtækja. Hörður segist vera sammála forsætisráðherra. Kanna eigi leiðir til að koma í veg fyrir hækkanir til heimila. Hörður bendir á reynslu Norðmanna.

„Þeir búast ekki við hækkunum vegna sæstrengjanna þvert á það sem margir halda fram. Norðmenn láta markaðinn alveg ráða. Ég held að það sé mögulegt, sé vilji til þess, að koma í veg fyrir að verð til heimila hækki. En svo er það stjórnmálamanna að ákveða hvort það er skynsamlegt. Þetta er verðmæt vara og almennt er rétt að verðleggja vörur í samræmi við verðmæti,“ segir Hörður.

200 MW virkjun

En þó að Bretar séu tilbúnir að fjármagna lagningu sæstrengs milli Íslands og Bretlands er ljóst að kostnaður Landsvirkjunar verður verulegur. Það þarf að virkja en Hörður segir að með því að tengja landið við Bretland sé verið að nýta auðlindirnar mun betur. Við núverandi aðstæður sé um 10 prósentum af orkunni sóað. Ljóst sé að það þurfi að fjárfesta í virkjunum. Talað er um að Bretar fái um 5 tetravattstundir á ári. Áætlað er að tvær þeirra gætu komið úr núverandi kerfi. 1,5 gæti komið úr smávirkjunum, vindorku og betri nýtingu jarðvarma. Virkja þyrfti til að ná í eina og hálfa tetravattstund sem svara til 200 megavattavirkjunar. Sigalda er t.d. 150 megavött, Búrfell 270 og Hrauneyjafossvirkjun 210. Eða með örðum orðum það þarf sæmilega stóra virkjun.

Verðið verður að vera hagkvæmt.

Rætt hefur verið um að Bretar muni greiða 80 til 140 dollara fyrir hverja megavattstund en til samanburðar greiðir Norðurál 15 dollara. Hörður vill ekki nefna tölur um verð.
„ Það hins vegar ljóst að það þarf að vera verulega hagkvæmt til að ráðist verði í þetta verkefni. Bretum er það full ljóst. Það koma skýrt fram í máli Cammerons,“ segir Hörður Arnarson

Það er enn margt óljóst um hagkvæmni sæstrengs og væntanlega á myndin eftir að skýrast á allra næstu mánuðum. Til dæmis er ekki ljóst hvar hann mun liggja en til greina kemur að hann hafi viðkomu í Færeyjum á leiðinni til Skotlands.

 

Heimild: RÚV

 

Fleira áhugavert: