Byggingarreglugerðin – ýmsar kvaðir megi endurskoða
Gera þarf fólki kleift að haga húsabyggingum sínum á sveigjanlegri hátt en nú er og stjórnvöld eiga ekki að ákveða hvað megi eða hvernig hlutirnir eigi að vera niður í minnstu atriði. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, tekur undir með henni að ýmsar kvaðir í byggingarreglugerðinni megi endurskoða. Mbl.is ræddi við þær og Eygló Harðardóttur, velferðarráðherra, á fundi ráðherranna þriggja um aðgerðir til að finna hagkvæmar lausnir á húsnæðismarkaðinum í dag.
Stjórnvöld eiga ekki að segja fólki hvernig húsnæði það á að búa í
„Stjórnvöld eiga ekki að segja fólki hvernig húsnæði það á að búa í, hvort þvottavélin sé við hliðina á uppþvottavélinni eða hvort þú þurfir að vera með geymslu,“ segir Ragnheiður. Hún bjó sjálf í Bandaríkjunum í námi sínu og segir að þar hafi farið prýðilega um hana í pínulítilli íbúð. „Við þurfum að hlusta á raddir unga fólksins sem er að koma núna á markaðinn,“ segir hún, en á fundinum var mikið rætt um skort á húsnæði fyrir fyrstu íbúðaeigendur og minni íbúðir og svokallaðar öríbúðir.
Byggingarreglugerðin umtöluð, en enginn nefndi úrbætur
Umræða um byggingarreglugerðina var fyrirferðamikil á fundinum en Sigrún segir að merkilegt sé að annar hver maður hafi nefnt hana, en enginn sagt hvað það væri sem væri hamlandi við núverandi reglugerð. Sagði hún að ekki væri rétt að einblína um of á þetta eina atriði, því til þess að ná fram hagkvæmni í þessu væru mun fleiri atriði sem þyrfti að horfa til.
Nefndi hún meðal annars að í meðförum þingsins núna væri breytingartillaga við skipulagslög sem einfölduðu skipulagsmál í dreifðari byggðum þannig að ekki væri þörf á deiluskipulagi, heldur dugi grenndarkynning. „Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir hún og benti á að fleiri mál eins og fjármagnskostnaður, lóðaverð og fleira þyrfti að skoða vel í þessari vinnu, enda væru það stórir gjaldaliðir.
Aðspurð hvort þessar fjölmörgu athugasemdir um byggingarreglugerðina hefðu komið sér á óvart sagði Sigrún að í henni væru einhver atriði sem mætti skoða að nýju. Sagði hún að fólk þyrfti stundum ekki stórar geymslur og horfa mætti til breytinga þar sem kveðið er á um uppbyggingu inn í íbúðum. Áður hafði nefnd verið skipuð af ráðherra til að fara yfir þessi mál og sagði Sigrún að hún væri nú að störfum og ætti að skila af sér skýrslu eftir 2-3 vikur.
Meiri sveigjanleiki, t.d. varðandi kröfur fyrir fatlaða
Eygló sagðist vonast til þess að þær tillögur sem komu fram á fundinum muni skila sér í lækkun á byggingarkostnaði. Hún tók þó fram að það væri ekki einn aðili sem gæti lækkað kostnaðinn, heldur þyrfti þetta að vera samtaka átak fjölda aðila. Aðspurð hvort slaka mætti á fyrrnefndri byggingarreglugerð ef það myndi lækka kostnað við að byggja húsnæði sagði hún að öll Norðurlöndin hafi lögfest sáttmála Sameinuðu þjóðanna um fatlað fólk, samt sem áður væru þau með mun meiri sveigjanleika en Íslendingar þegar kæmi að byggingu húsa með tilliti til fatlaðs fólks. Sagði hún svona atriði geta skipt miklu máli fyrir fólk sem væri að horfa til þess að byggja, leigja eða fá búseturétt.
Þá sagði hún fjölda minni mála geta lækkað kostnað og dregið úr byggingartíma. Eitt af því væri að skipulagsyfirvöld tækju á móti rafrænum umsóknum og gögnum, en ekki að það þyrfti að mæta á skrifstofutíma með þau. Þetta væri þó aðeins eitt af mörgum atriðum.
Heimild: Mbl