Bygg­ing­ar­reglu­gerðin – ýms­ar kvaðir megi end­ur­skoða

mbl

reglur

Gera þarf fólki kleift að haga húsa­bygg­ing­um sín­um á sveigj­an­legri hátt en nú er og stjórn­völd eiga ekki að ákveða hvað megi eða hvernig hlut­irn­ir eigi að vera niður í minnstu atriði. Þetta seg­ir Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, en Sigrún Magnús­dótt­ir, um­hverf­is­ráðherra, tek­ur und­ir með henni að ýms­ar kvaðir í bygg­ing­ar­reglu­gerðinni megi end­ur­skoða. Mbl.is ræddi við þær og Eygló Harðardótt­ur, vel­ferðarráðherra, á fundi ráðherr­anna þriggja um aðgerðir til að finna hag­kvæm­ar lausn­ir á hús­næðismarkaðinum í dag.

Stjórn­völd eiga ekki að segja fólki hvernig hús­næði það á að búa í

„Stjórn­völd eiga ekki að segja fólki hvernig hús­næði það á að búa í, hvort þvotta­vél­in sé við hliðina á uppþvotta­vél­inni eða hvort þú þurf­ir að vera með geymslu,“ seg­ir Ragn­heiður. Hún bjó sjálf í Banda­ríkj­un­um í námi sínu og seg­ir að þar hafi farið prýðilega um hana í pínu­lít­illi íbúð. „Við þurf­um að hlusta á radd­ir unga fólks­ins sem er að koma núna á markaðinn,“ seg­ir hún, en á fund­in­um var mikið rætt um skort á hús­næði fyr­ir fyrstu íbúðaeig­end­ur og minni íbúðir og svo­kallaðar ör­í­búðir.

Ragnheiður Elín Árnadóttir og Eygló Harðardóttir á fundinum í morgun.

Ragn­heiður Elín Árna­dótt­ir og Eygló Harðardótt­ir á fund­in­um. Eggert Jó­hann­es­son

Bygg­ing­ar­reglu­gerðin um­töluð, en eng­inn nefndi úr­bæt­ur

Umræða um bygg­ing­ar­reglu­gerðina var fyr­ir­ferðamik­il á fund­in­um en Sigrún seg­ir að merki­legt sé að ann­ar hver maður hafi nefnt hana, en eng­inn sagt hvað það væri sem væri hamlandi við nú­ver­andi reglu­gerð. Sagði hún að ekki væri rétt að ein­blína um of á þetta eina atriði, því til þess að ná fram hag­kvæmni í þessu væru mun fleiri atriði sem þyrfti að horfa til.

Nefndi hún meðal ann­ars að í meðför­um þings­ins núna væri breyt­ing­ar­til­laga við skipu­lagslög sem ein­földuðu skipu­lags­mál í dreifðari byggðum þannig að ekki væri þörf á deilu­skipu­lagi, held­ur dugi grennd­arkynn­ing. „Margt smátt ger­ir eitt stórt,“ seg­ir hún og benti á að fleiri mál eins og fjár­magns­kostnaður, lóðaverð og fleira þyrfti að skoða vel í þess­ari vinnu, enda væru það stór­ir gjaldaliðir.

Aðspurð hvort þess­ar fjöl­mörgu at­huga­semd­ir um bygg­ing­ar­reglu­gerðina hefðu komið sér á óvart sagði Sigrún að í henni væru ein­hver atriði sem mætti skoða að nýju. Sagði hún að fólk þyrfti stund­um ekki stór­ar geymsl­ur og horfa mætti til breyt­inga þar sem kveðið er á um upp­bygg­ingu inn í íbúðum. Áður hafði nefnd verið skipuð af ráðherra til að fara yfir þessi mál og sagði Sigrún að hún væri nú að störf­um og ætti að skila af sér skýrslu eft­ir 2-3 vik­ur.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra.

Sigrún Magnús­dótt­ir, um­hverf­is­ráðherra. Eggert Jó­hann­es­son

Meiri sveigj­an­leiki, t.d. varðandi kröf­ur fyr­ir fatlaða

Eygló sagðist von­ast til þess að þær til­lög­ur sem komu fram á fund­in­um muni skila sér í lækk­un á bygg­ing­ar­kostnaði. Hún tók þó fram að það væri ekki einn aðili sem gæti lækkað kostnaðinn, held­ur þyrfti þetta að vera sam­taka átak fjölda aðila. Aðspurð hvort slaka mætti á fyrr­nefndri bygg­ing­ar­reglu­gerð ef það myndi lækka kostnað við að byggja hús­næði sagði hún að öll Norður­lönd­in hafi lög­fest sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna um fatlað fólk, samt sem áður væru þau með mun meiri sveigj­an­leika en Íslend­ing­ar þegar kæmi að bygg­ingu húsa með til­liti til fatlaðs fólks. Sagði hún svona atriði geta skipt miklu máli fyr­ir fólk sem væri að horfa til þess að byggja, leigja eða fá bú­setu­rétt.

Þá sagði hún fjölda minni mála geta lækkað kostnað og dregið úr bygg­ing­ar­tíma. Eitt af því væri að skipu­lags­yf­ir­völd tækju á móti ra­f­ræn­um um­sókn­um og gögn­um, en ekki að það þyrfti að mæta á skrif­stofu­tíma með þau. Þetta væri þó aðeins eitt af mörg­um atriðum.

 

Heimild: Mbl

Fleira áhugavert: