Brekkuás 2 Garðabæ – „öríbúðir“ fyrir ungt fólk

Heimild:  

 

Brekkuás

Brekkuás Garðabæ     Smella á mynd til að stækka

Arkitektastofan Zeppelin, í samstarfi við fjárfesta, hefur sótt um lóðina Brekkuás 2 í Garðabæ. Hugmyndin er að hanna þar og byggja hagkvæmar og ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk til eignar. Kallað verður eftir skoðunum og tillögum ungs fólks í Garðabæ á því hvernig íbúðir það óskar eftir.

Þetta kemur fram í bréfi Zeppelin arkitekta til bæjarráðs Garðabæjar sem vísaði því til skoðunar í tengslum við vinnu við endurskoðun aðalskipulags.

Hugmyndirnar sem Zeppelin kynnir í bréfinu er nýjar af nálinni og hafa ekki sést áður. Meðal annars á að setja á laggirnar rýnihóp þar sem stofnað verður til samráðs og samtals um hvaða þarfir og óskir þarf að uppfylla varðandi húsnæði ungs fólks.

Íbúðirnar eiga að gefa ungu fólki færi að eignast sína fyrstu íbúð og mynda eigið fé í henni strax frá byrjun í stað þess að þurfa að leita á almennan leigumarkað. „En fyrir margt ungt fólk getur það verið þrautin þyngri að losna úr viðjum leigumarkaðarins.“

Í bréfinu segir enn fremur að ekki sé ólíklegt að ungt fólk sé viljugt til að sleppa ýmsu því sem sé til staðar í hefðbundnum íbúðum til að ná því markmiði að lágmarka kostnað. „Í samanburði við hefðbundið rými í hefðbundinni íbúð, þar sem hvert rými þjónar aðeins einum tilgangi, verður leitast við að hvert rými verði meira „fjölnota“ í þeim íbúðum sem ætlunin er að hanna og reisa fyrir ungt fólk.“

Orri Árnason, arkitekt hjá Zeppelin,  segir í samtali við fréttastofu að fyrirmyndin að þessu sé fengin frá Danmörku. Þetta séu hálfgerðar „öríbúðir“ og að verið sé að horfa til þess að ungt fólk geti þarna eignast sína fyrstu íbúð, myndað hratt eigið fé og þannig stökkpall inn í framtíðina.

Fleira áhugavert: