ON og breytingar á íslenskum raforkumarkaði
ON og breytingar á íslenskum raforkumarkaði
Íslenski raforkumarkaðurinn er að breytast. Og það mun meira en flestir virðast gera sér grein fyrir. Það er reyndar mjög einkennilegt að fjölmiðlarnir hér á Íslandi virðast ekki gefa þessu gaum. Ég hef a.m.k. ekki séð fjölmiðla hér vera að fjalla um þessar breytingar af þeirri dýpt og þeim metnaði sem eðlilegt væri. Það er því tilefni til að ég veki athygli lesenda minna á eftirfarandi tíðindum.
Athyglisverður samningur ON og Silicor
Umræddar breytingar á íslenskum raforkumarkaði felast m.a. í því að aukin eftirspurn eftir íslenskri orku er að skapa raforkufyrirtækjunum hér ný og áhugaverð tækifæri. Þar er um að ræða tækifæri sem mikilvægt er að grípa. Þessi þróun birtist t.d. með skýrum hætti í nýjum raforkusamningi Orku náttúrunnar (ON -sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur).
Þarna er um að ræða samning milli ON og Silcor Matreials, sem hyggst reisa sólarkísilvinnslu á Grundartanga. Stóra fréttin er sú að þarna er ON bersýnilega að fá verð fyrir raforku til stórnotenda sem er langt umfram það orkuverð sem við erum vön að stórnotendur hér hafa greitt.
Raforkuverðið til Silcor er nálægt heimilisverði
Um þennan nýja raforkusamning við Silicor segir í fréttatilkynningu ON frá 17. september s.l. (2015). Þar kemur fram að um sé að ræða samninga (fremur en einn samning) þar sem samið er um raforkusölu í áföngum (sem væntanlega merkir að raforkusalan eykst eftir því sem framleiðsla Silicor eykst). Og það sem er áhugaverðast er að þarna segir að raforkuverðið sem samið var um, sé að jafnaði svipað eins og verðið sem heimili greiða. Orðrétt segir í tilkynningu ON:
Auk þess [] hækkar verðið verulega sem ON fær með nýja samningnum. Það er í bandaríkjadölum og mismunandi eftir áföngum afhendingar. Að jafnaði er heildsöluverðið í samningum farið að nálgast það sem heimili greiða fyrir rafmagn í smásölu í dag. Samningurinn er til 15 ára með möguleika á framlengingu. Afhending orku hefst á árinu 2018.
Verðið er nálægt 43 USD/MWst
Undanfarin ár hefur meðalverð á raforku til stóriðju án flutnings, hér á Íslandi, verið nálægt 20 USD/MWst. En raforkuverðið í nýja samningnum við Silicor er miklu hærra eða nálægt 43 USD/MWst.
Ástæða þess að við vitum að verðið þarna er nálægt 43 USD/MWst er sú að ON segir það sjálft. Á vef fyrirtækisins má sjá að almennt raforkuverð ON núna er 5,40 kr/kWst. Það jafngildir, skv. núverandi gengi, rétt um 43 USD/MWst.
Í fréttatilkynningunni segir að verðið til Silicor sé að jafnaði að nálgast þetta heimilsverð eða almenna smásöluverð. Því hlýtur ályktunin að vera sú að orkuverð ON til Silcor sé nálægt umræddum 43 USD. Eða a.m.k. ekki fjarri þeirri tölu. Því annars væri þessi fréttatilkynning ON röng og villandi.
ON losnar undan Norðurálsverði
Þarna er um töluvert orkumagn að ræða eða sem samsvarar 40 MW. Og vert að vekja athygli á því að þó svo ON hafi þarna gert nýjan samning við stórnotanda, þá þarf ON samt ekki að reisa neina nýja virkjun né auka framleiðslu í núverandi virkjunum. Enda er augljóst að næstum öll þessi raforka er orka sem hingað til hefur verið samningsbundin álveri Norðuráls (með viðkomu hjá Landsvirkjun sem hefur keypt orku af ON og selt hana áfram á sama verði til Norðuráls). Þetta sést vel af Skýrslu úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur frá 2012, þar sem samningunum OR við Landsvirkjun er lýst.
Ánægja hjá ON
Af áðurnefndri fréttatilkynningu ON er bersýnilegt að þar á bæ ríki mikil ánægja með þennan samning við Slicor. Og að ON grætur það ekki að sleppa undan orkusölu á botnverðinu sem Norðurál hefur notið vegna umræddrar orku. Enda dregur raforkusalan til Norðuráls arðsemi orkufyrirtækjanna hér niður. Miðað við álverð undanfarið má ætla að með orkusölunni til Silcor fái ON verð sem er á bilinu þrefalt til fjórfalt það verð sem fæst fyrir þess Norðurálsorku í dag. Það eru góð tíðindi fyrir ON og eigendur fyrirtækisins.
Það er sannarlega ánægjulegt að orkufyrirtækin hér séu komin í þá stöðu að bjóðast miklu hærra verð fyrir orkuna frá stórnotendum en verið hefur. Í þessu tilviki var það ON sem gat fagnað. Og viðeigandi að samgleðjast fyrirtækinu vegna þessa. Þarna má líka segja að ON hafi stigið athyglisvert skref, sem sýnir okkur skýrt og skorinort hvernig íslenski raforkumarkaðurinn er að þróast. Í átt til aukinnar arðsemi af nýtingu þessara mikilvægu náttúruauðlinda sem orkulindirnar okkar eru.
Fleiri svona jákvæð skref vonandi framundan
Þetta er afar mikilvægt. Rétt eins og það er t.d. afar mikilvægt að gott verð fáist fyrir íslenskan fisk og sjávarafurðir. Og með hliðsjón af þessu öllu saman ætti öllum að vera ljóst hversu mikilvægt það er að aðrir stóriðjusamningar sem eru að losna, skili líka mikilli hækkun á arðsemi í raforkusölunni. Rétt eins og var að gerast hjá ON.
Heimild: Mbl