Jákvæður áhugi á sæstreng
Nú í vikunni fór fram áhugaverður fundur á vegum Bresk-íslenska viðskiptaráðsins um mögulegan sæstreng og raforkuviðskipti milli Bretlands og Íslands. Þar talaði m.a. fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, ásamt Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar og fólki úr breska og bandaríska orkugeiranum.
Þeirra á meðal voru Charles Hendry, fyrrum orkumálaráðherra Bretlands, og Charlotte Ramsay, sem verið hefur verkefnastjóri breska National Grid vegna sæstrengsins sem senn verður lagður milli Bretlands og Noregs (National Grid gegnir svipuðu hlutverki eins og Landsnet gerir hér á landi). Þarna var því um að ræða fólk með mikla þekkingu og reynslu af viðfangsefninu. Í þessari grein verður fjallað um nokkur atriði sem fram komu á fundinum og þau sett í samhengi við orkuverðið hér. Þar má sérstaklega nefna eftirfarandi:
- Fjármögnun ekki álitin vandamál:
Fram kom á fundinum að góður áhugi sé meðal erlendra fjárfesta fyrir sæstrengnum og útlit fyrir að ekki verði vandkvæði með að fjármagna verkefnið. Þar er þó eðlilega ennþá veruleg óvissa – því enn sem komið er hefur málinu fremur lítið verið sinnt af hálfu íslenskra stjórnvalda. Í máli fyrirlesara kom skýrt fram að bresk stjórnvöld og breska raforkuflutningsfyrirtækið National Grid séu áhugasöm um verkefnið og að boltinn sé núna hjá íslenskum stjórnvöldum. - Raforkuverð til Bretlands yrði sennilega á bilinu 80-140 USD/MWst:
Fyrirlesararnir fjölluðu lítið um tölur en þeim mun meira um verkefnið almennt. Af svörum við spurningum í lok fundarins og ýmsum gögnum má þó ráða að raforkuverðið sem vænta megi vegna raforkusölu til Bretlands yrði sennilega á bilinu 80-140 USD/MWst. Þá er vel að merkja búið að draga flutningskostnað um sæstrenginn frá, þ.e. umrædd upphæð er verðið sem íslenska orkufyrirtækið gæti fengið í tekjur af hverri seldri MWst. - Raforkuverðið til Norðuráls og Fjarðaáls um og undir 15 USD/MWst:
Til samanburðar kann lesendum að þykja það áhugavert að raforkuverð Landsvirkjunar til Norðuráls er núna talsvert undir 15 USD/MWst (þ.e. raforkuverðið án flutningskostnaðar). Og sambærilegt verð til Fjarðaáls er nú nálægt 15 USD/MWst. Það myndi því augljóslega skapa afar góð tækifæri til aukinnar arðsemi að geta selt raforku til Bretlands á 80-140 USD/MWst. Sem er nálægt því að vera tífalt hærra verð en verðið til Norðuráls og um sex- til áttfalt verð þegar miðað er við verðið til Fjarðaáls. - Viðræður eru mikilvægar:
Ennþá er uppi ýmis óvissa um mikilvæg atriði vegna verkefnisins, eins og t.d. raforkuverðið, orkumagnið og kostnað við verkefnið. Enda hafa engar ítarlegar formlegar viðræður ennþá átt sér stað milli breskra og íslenskra stjórnvalda um verkefnið, né við framleiðendur svona sæstrengja og tilheyrandi spennustöðva. Eðlilegast er að farið verði í slíkar viðræður til að fá skýrari mynd af verkefninu. Og engin ástæða til að bíða með það. En víkjum nú nánar að fundinum og orkuverðinu:
Góð hreyfing að komast á málið?
Á fundinum kom ýmislegt athyglisvert fram. Svo sem það að verulegur áhugi sé á því erlendis að fjármagna sæstrenginn, eins og áður sagði. Á fundinum kom líka skýrt fram að til að málið haldi áfram þurfa íslensk stjórnvöld að ákveða hvort og hvernig þau vilja halda á málinu. Af orðum fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar, þótti mér sem tónninn væri sá að meiri hreyfing kunni senn að komast á málið en verið hefur. Það er jákvætt og löngu tímabært – því þarna gæti verið um að ræða eitthvert besta efnahagstækifæri Íslands.
Það er bæði skynsamlegt og eðlilegt að vandlega verði hugað að þessu áhugaverða tækifæri. Og æskilegt að beinar formlegar viðræður hefjist um málið á milli íslenskra og breskra stjórnvalda. Slíkar viðræður yrðu óskuldbandi og fælu ekki í sér neina áhættu. En gætu orðið til að skýra hratt og vel ýmis óvissuatriði. Það mælir því allt með slíkum viðræðum.
Nýleg dæmi eru um raforkuverð allt að 240 USD/MWst
Meðal framsögumanna á umræddum fundi var fólk sem gjörþekkir bæði þróun sæstrengja og breska raforkumarkaðinn. Að þeirra mati er sæstrengsverkefnið bæði tæknilega og fjárhagslega áhugavert. Og þau virtust telja góðar líkur á að unnt sé að ná samningi um raforkuverð sem yrði í samræmi við nýlega samninga breskra stjórnvalda um t.a.m. vindorku og kjarnorku.
Þarna var þó varlega farið í að nefna tölur. Hér skal minnt á að í fyrstu umferð sérstakra samninga um ný vindorkuverkefni í Bretlandi bauðst raforkuverð sem í dag jafngildir um 240 USD/MWst. Í annarri umferð slíkra samninga mátti sjá verð sem jafngildir um 180 USD/MWst. Með hliðsjón af þessu og öðrum viðmiðunarverðum í orkustefnu breskra stjórnvalda er kannski eðlilegt að gera ráð fyrir að orka frá Íslandi yrði seld á allt að 180 USD/MWst.
Líklegt raforkuverð á bilinu 80-140 USD/MWst
Til að gera sæstrengsverkefnið sérstaklega áhugavert fyrir Breta má þó gera ráð fyrir að orkuverðið vegna raforkunnar frá Íslandi þurfi að vera aðlaðandi í samanburði við verðin sem undanfarið hafa verið í boði vegna endurnýjanlegra orkuverkefna innan Bretlands. Þá er eðlilegt að líta til flutningskostnaðar um sæstrenginn, svo og þess að íslenskan orkan ætti kannski þrátt fyrir þann kostnað að vera eitthvað ódýrari en frá t.d. nýju bresku vindorkuveri utan við ströndina. Þar með má mögulega ætla að hámarksverð fyrir íslensku orkuna kynni að vera allt að 140 USD/MWst. Þá er átt við verð án flutnings, þ.e. það verð sem Landsvirkjun og önnur íslensk orkufyrirtæki myndu fá fyrr orkuna.
Þetta verð, 140 USD/MWst, er hér nefnt sem mögulegt hámarksverð miðað við þær aðstæður og þá samninga sem nú eru fyrir hendi. Þetta kann þó að vera of hátt verð til að verkefnið sé nægilega aðlaðandi fyrir bresk stjórnvöld. Enda virðist sem Landsvirkjun telji rétt að vera hógværari í væntingum. Sem er sjálfsagt skynsamlegt og kannski líklegra til að skila samningum.
Í því sambandi má nefna að í nýlegri kynningu á vegum Landsvirkjunar um sæstrengsmöguleikann má sjá viðmiðunina 80 USD/MWst (sem lágmarksverð). En jafnvel svo hógvært verð felur í sér mjög áhugaverð tækifæri til stóraukinnar arðsemi af raforkusölu. Enda er þetta verð (80 USD/MWst) margfalt hærra en það verð sem erlenda stóriðjan hér greiðir (enda hafa þau raforkuviðskipti skapað stóriðjunni hér myljandi hagnað).
Norðurál og Fjarðaál eru einungis að greiða um og undir 15 USD/MWst
Það er sem sagt sennilega raunhæft að gera ráð fyrir því að eðlilegt samningsverð yrði einhversstaðar á umræddu bili; 80-140 USD/MWst. Mögulega þó nær neðri mörkunum þarna heldur en þeim efri. Það merkir að verðið gæti t.d. verið 80 USD/MWst eða 90 USD/MWst eða 100 USD/MWst eða jafnvel um 105 USD/MWst. Og þá er átt við verðið sem íslenski orkuframleiðandinn fengi í sinn hlut fyrir hverja framleidda og selda MWst um strenginn.
Til samanburðar er áhugavert að í dag er raforkuverðið sem Landsvirkjun fær vegna raforkusölu til Fjarðaáls nálægt 15 USD/MWst og verðið til Norðuráls er ennþá lægra. Þegar flutningskostnaður er tekinn með eru þessu umræddu álfyrirtæki Alcoa og Century að greiða Landsvirkjun og Landsneti samtals um og undir 20 USD/MWst nú um stundir. Tekið skal fram að álverin greiða flutningskostnaðinn til Landsvirkjunar sem svo greiðir Landsneti fyrir flutninginn til álveranna.
Lesendur skulu hafa í huga að umræddar tölur um raforkuverð til álveranna eru síbreytilegar. Vegna þess að orkuverðið þarna er tengt álverði. Og í dag er verð á áli í lægri kantinum. En tölurnar gefa okkur áhugaverða vísbendingu um það hvernig sæstrengur felur í sér tækifæri til stóraukinnar arðsemi Landsvirkjunar og annarra íslenskra orkufyrirtækja. Þegar litið er til þess að sæstrengur gæti skilað raforkuverði á bilinu 80-140 USD/ sést t.a.m. að það verð er í nágrenni við að vera tífalt hærra raforkuverð en Norðurál greiðir núna.
Þrefaldur til tífaldur verðmunur
Meira að segja raforkuverðið til álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík, sem greiðir miklu hærra orkuverð en hin álverin tvö og er ekki með álverðstengingu, er miklu lægra en lágmarksverðið sem gæti fengist fyrir raforku selda um sæstrenginn. Verðið til Straumsvíkur (nettóverðið) er nú rétt rúmlega þriðjungur þess lágmarksverðs sem vænta má (80 USD/MWst) vegna raforkusölu um sæstrenginn. Og ef miðað er við hærri mörkin sem voru nefnd hér fyrr (140 USD) þá er raforkuverðið til Straumsvíkur innan við fjórðungur sæstrengsverðsins.
Lesendur hljóta flestir að vera sammála því að þetta er sláandi mikill munur. Og eins og áður sagði þá er munurinn ennþá meiri þegar litið er til raforkusölunnar til Fjarðaáls og Norðuráls! Í tilviki síðastnefnda álversins er álverið nú að greiða raforkuverð sem er um tíundi hluti af því sem fengist gæti fyrir raforku sem seld yrði til Bretlands. Og verðmunurinn gagnvart Fjarðaáli er lítið minni.
Bretar áhugasamir um viðræður
Hér í lokin skal nefnt að það er afar ánægjulegt að heyra fólk með mikla þekkingu á sæstrengjum og breska raforkumarkaðnum vera svo jákvætt gagnvart sæstreng milli Íslands og Bretlands, eins og var á þessum umrædda fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins. Einnig er áhugavert að rifja það upp að bresk stjórnvöld hafa fyrir allnokkru óskað eftir viðræðum við íslenska atvinnu- og nýsköpunarráðherrann um möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands.
Því hafnaði íslenski ráðherrann. Það var mjög furðuleg afstaða, því engin áhætta fylgir því fyrir Ísland að kanna þennan möguleika til fulls. Íslenski nýsköpunarráðherrann hefur þannig tafið fyrir því að ýmis mikilvæg atriði um t.d. arðsemi og umhverfisáhrif sæstrengs skýrist. Vonandi sjáum við brátt skynsamari ákvarðanir af hálfu íslenskra stjórnvalda.
Heimild: Mbl