110 metra háar vindmyllur á Akureyri – Fallorka hefur látið kanna hagkvæmni þess
Fallorka á Akureyri hefur látið kanna hagkvæmni þess að reisa 110 metra háar vindmyllur á tveimur stöðum í Eyjafirði, Í Hörgárdal og sunnan Hrafnagilshverfis í Eyjafjarðarsveit. Verkfræðistofan Efla hefur unnið hagkvæmniúttektina fyrir Fallorku og koma þessir staðir best út í Eyjafirði.
Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku, segir vindmyllurnar framleiða jafn mikið rafmagn og þær sem standa við Búrfell. Þær vindmyllur eru lægri en sökum stöðugri vinda á hálendinu þyrfti að hafa eyfirsku vindmyllurnar stærri í sniðum til að ná sömu framleiðslu. Dalvíkurbyggð boðar í dag til fundar í menningarhúsinu Bergi undir yfirskriftinni Orkumál og smávirkjanir. Þar mun Andri fara yfir þessa skýrslu.
„Þessar vangaveltur eru aðeins á hugmyndastigi og við létum kanna veðuraðstæður í Eyjafirði og skoða hvaða staðir henta best fyrir vindmyllur á svæðinu, þar skoðuðum við aðallega tvo staði. Í framhaldi fundarins mun stjórn Fallorku svo kynna sér efni skýrslunnar,“ segir Andri.
Nú nýlega gerði Fallorka samkomulag við þýska fyrirtækið EAB New Energy Gmbh um að skoða samstarf fyrirtækjanna við uppsetningu vindmyllugarða í Eyjafirði. Fyrirtækið erlenda komst í fréttirnar nú nýverið fyrir að bjóða sveitarfélögum peningaupphæðir og ýmiss konar vilyrði ef þau leyfðu uppbyggingu vindorkugarða á sínu umráðasvæði.
Heimild: Vísir