Eitt stærsta verktakafyrirtæki norðurlanda MT Höjgaard opna skrifstofu á Íslandi
Danska verktakafyrirtækið MT Höjgaard, sem er eitt stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á Norðurlöndum, ætlar að opna skrifstofu á Íslandi eftir um það bil einn mánuð. Á Íslandi verður svæðisskrifstofa fyrirtækisins fyrir Ísland, Grænland og Færeyjar.
Fyrirtækið á rætur að rekja til ársins 1918 en framan af hét það Höjgaard & Schultz. Fyrirtækið byggði m.a., Eyrarsundsbrúna, Millenium-brúna í London, Fields verslunarmiðstöðina í Kaupmannahöfn auk fjölmargra annarra þekktra mannvirkja. Nafni fyrirtækisins var breytt þegar Höjgaard & Schultz sameinaðist verktakafyrirtækinu Monberg & Thorsen árið 2001.
Byggja sólarkísilverksmiðju Silicor
MT Höjgaard mun sjá um byggingu sólarkísilverksmiðju Silicor á Grundartanga. Áætlað er að verskmiðjan verði fullbyggð árið 2018 en um yfir þrjú hundruð manns munu koma að uppbyggingunni. Líkt og mbl greindi frá er fjórtán milljarða hlutafjársöfnun fyrir verksmiðjuna þegar í höfn. Íslenskir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar hafa skráð sig fyrir sex milljörðum króna en erlendir hluthafar leggja til rest.
MT Höjgaard mun sjá um byggingu sólarkísilverksmiðjunnar á Grundatanga.
Svæðisskrifstofan hefur hingað til verið í Færeyjum en líkt og áður segir stendur til að flytja hana hingað til lands von bráðar. Áfram verða þó minni skrifstofur í Færeyjum og á Grænlandi.
Samkeppni á íslenskum markaði
Jóhannes Niclassen, skrifstofustjóri, segir í samtali við mbl að þegar sé búið að ráða einn íslenskan verkfræðing til starfa og til stendur að ræða við fleiri.
MT Höjgaard hyggst leigja skrifstofurými á Suðurlandsbraut og segir Niclassen að starfsmenn gætu alls orðið um sautján talsins.
Niclassen segir að skrifstofan á Íslandi muni einbeita sér að tvennu; Uppbyggingu sólarkísilverksmiðjunnar og að skapa MT Höjgaard sess á íslenskum verktakamarkaði. „Við stefnum á að koma með sterka samkeppni inn á íslenskan markað,“ segir Niclassen.
Heimild: Mbl