Vatnsskortur í Kaliforníu – Alvarleg þróun sem getur haft víðtæk áhrif .!

 

ruv

Vatnsskortur kaliforníuríkis Bandaríkjana

Hér má heyra umfjöllun RÚV

Vatnsskortur í Kaliforníu

Þann fyrsta apríl á hverju ári, frá því nítján hundruð fjörutíu og eitt, hefur hópur manna farið hátt upp í Sierra Nevada fjöllin í Kaliforníu, til að mæla snjóþykkt hjá litlu þorpi sem heitir Phillips Station.
Sú mæling hefur síðan verið notuð til að reikna út vatnsbúskapinn í ríkinu fram á næsta haust. Það er ekkert smáræði sem bændur og byggðalög þurfa af vatni í Kaliforníu. Kalifornia er mikil matarkista, ein sú mesta í heiminum og veltan er gríðarleg. Hins vegar var megnið af landinu nánast eyðimörk áður en menn fóru að veita vatni á auðnina og rækta landið í stórum stíl. Vegna úrkomuleysis er þar lítið um ár og læki. Það er vart hægt að segja að landbúnaður í Kaliforníu sé orðinn hundrað ára gamall. Um aldamótin 1900 var megnið af landinu vaxið harðgerðu grasi og þyrrkingslegum runnum. Eins og það hafði verið um þúsundir ára.

 

Ríkisstjórinn boðar vatnsskömmtun

 Fyrir rúmum hálfum mánuði, fyrsta apríl síðastliðinn, fór ríkisstjóri Kaliforníu ásamt snjómælingamannskapnum upp í Johnson skarð, í Phillips Station þorpið, þar sem snjóþykktin hefur verið mæld undanfarin 74 ár. Þarna upp í skarðinu, í um það bil tvö þúsund metra hæð yfir sjávarmáli, er snjóþykktin í venjulegu árferði sirka 2 metrar.  Nú í ár var jörðin auð í fyrsta skipti frá því mælingar hófust. Þetta vissi Jerry Brown ríkisstjóri reyndar fyrirfram og hafði því í för með sér blaðamenn og ljósmyndara til að koma með dramatíska yfirlýsingu fyrir kvöldfréttirnar. Yfirlýsingin var þess efnis að dregið skyldi úr vatnsnotkun í þéttbýli, alls staðar í Kaliforníu, um tuttugu og fimm prósent innan árs. En hann sagði ekkert um hvað yrði gert eftir eitt ár. Sem mörgum fannst segja margt. Þessar fréttir komu Kaliforníubúum reyndar ekkert á óvart, því þurrkurinn hefur verið langvarandi, núna kominn á fjórða ár. Það hafði lika frést af rannsóknum, sem sýna að þurrkurinn í Kalifórníu er til kominn vegna hlýnunar jarðar og ennfremur að hann er sá lengsti sem hefur orðið í landinu í ein þúsund ár. Vatnsbúskapurinn í Kalifórníu hefur aldrei verið eins bágborinn og nú, það er talið að vatnsforðinn sem er bundinn í snjólögum fjallanna, sé aðeins fimm prósent af því sem gerist í venjulegu árferði.

Fyrst hækkar verð matvæla
Nú þegar vorar sjá menn fram á versnandi tíð og menn eru að gera sér æ betur grein fyrir hversu alvarleg þróunin er. Mest allt Kaliforníuríki þjáist vegna síharðnandi þurrka með tilheyrandi skógareldum í sumar, horfelli í bústofni, uppskerubresti og gjaldþroti í haust. Þessar fréttir úr Johnson skarði eru ekki bara slæmar fyrir Kaliforníubúa, ekki bara slæmar fyrir Bandaríkjamenn, þær eru slæmar fyrir allan heiminn. Þær eru slæmar vegna hins mikla efnahagslega áfalls sem verður líklegast eftir nokkur misseri, en versta fréttin er sú að nú eru að koma í ljós fyrstu meiriháttar afleiðingarnar vegna hlýnunar jarðar. Það sem eykur á vanda Kaliforníu er að meðalhitinn fer hækkandi, samfara úrkomuleysi. Aðstæður eru þannig  að þessi þróun verður að hægfara vítahring og menn óttast að vandinn muni alls ekki batna með tímanum. Þurrkarnir í Kaliforníu eiga eftir að hafa áhrif á okkur öll, alla jarðarbúa. Efnahagslega fyrst, en mismikið að sjálfsögðu. Hækkandi matvælaverð er það fyrsta sem við verðum vör ef ekkert breytist og fer að rigna vestur í Kaliforníu. Reyndin er þegar orðin sú vestur frá, þar sem verð fer hækkandi á dýrafóðri og þar afleiðandi á nautakjöti, sem er mjög vinsælt vestanhafs eins vitað er. Landbúnaðurinn notar áttatíu prósent af því vatni sem Kaliforníuríki geymir í fjöldamörgum uppistöðulónum.

Miðdalur
Megnið af búskapnum fer fram í hinum risavaxna miðdal — Central Valley. Miðdalur er fimmtíu og átta þúsund ferkílómetrar að stærð. Sem er meira en helmingur af flatarmáli Íslands. Miðdalur liggur nánast eftir endilöngu Kaliforníuríki og er um það bil sjöhundruð og tuttugu kílómetrar að lengd og sirka hundrað á breidd, þannig að þetta er gríðarstórt land. Miðdalur er eiginlega meiri slétta en dalur. Ríkið sér þarna um áveitu lands, sem er rúmlega fjórar milljónir hektara að stærð. Sem er ekkert smáræði.

Risavaxinn iðnaður í landbúnaði
Kalífornia sér Bandaríkjamarkaði fyrir helmingnum af öllum ávöxtum, hnetum og grænmeti. Það þýðir að Kalifornia framleiðir nánast allan mat fyrir 150 milljónir manna á hverjum degi. Þá er ótalinn allur hinn gríðarlegri útflutningur. Þarna eru til að mynda ræktuð áttatíu prósent af öllum möndlum í heiminum. Kalifornia er sjöunda stærsta iðnríki heims. Og þessi stórbrotna framleiðsla þarf gríðarinnar ósköp mikið af vatni eins og nærri getur. Sem sést á því að landbúnaðurinn tekur áttatíu prósent af því vatni, sem ríkið dreifir um landið. Landbúnaðurinn veltir rúmlega fimmtíu milljörðum dollara á ári, það gera hátt í sjö trilljónir íslenskra króna, sjö þúsund milljarða króna. Um Central Valley, Miðdal, liggur flókið dælunet sem tengir saman fjölda uppistöðulóna við býli og fyrirtæki í landbúnaði. Uppistöðulónin er aðallega  að finna austan megin dalsins í Sierra Nevada fjöllunum.

Vatnsborðið lækkar í jarðvegi
Nokkur þessara uppistöðulóna hafa þornað svo mikið að það  hefur aftur valdið vatnsskorti hjá nálægum bændum, sem hafa þá brugðið á það ráð að bora eftir vatni. Sem er reyndar það sem flestir í dalnum hafa gert í einhverjum mæli þrátt fyrir áveitu ríkisins. Vatni hefur sumstaðar verið dælt í stórum stíl frá því þurrkar hófust fyrir rúmum þrem árum. Vondu fréttirnar eru hins vegar þær að vatnsborð í jarðveginum fer snarlækkandi og það hefur orðið jarðsig upp á eitt fet árlega þar sem mestu vatni hefur verið dælt. Þegar sá vandi gerði vart við sig kom einnig í ljós að ríkið hafði ekkert um vatn í jarðvegi á landi í einkaeigu að segja. Þess vegna gilda um það engar reglur og hver og einn getur dælt að vild. Vandinn eykst stöðugt og vindur upp á sig, því nú kemur í ljós að um fjörutíu prósent af öllu neysluvatni Kaliforníbúa, er lindarvatn sem er dælt úr jörðu. Í Kaliforníu búa þrjátíu og níu milljónir manna. Vatnsborðið hefur lækkað gríðarlega eftir að bændur tóku að dæla þessu vatni á akra sína og nú óttast menn hreinlega skort á drykkjarvatni í nokkrum þéttbýliskjörnum í Miðdal.

Bruðlað með vatn
Eins og áður sagði; þá framleiða Kaliforníubændur áttatíu prósent af öllum möndlum á heimsmarkaði. Möndlurækt gefur mestan arð um þessar mundir, en hefur nú orðið fyrir vaxandi gagnrýni því möndlurnar eru ákaflega vatnsfrekar. Sá valkostur að hætta í möndlunum, og rækta eitthvað annað ekki nærri eins ábatasamt, virkar ekki aðlaðandi fyrir bændur í Miðdal.  Þrátt fyrir þær takmarkanir og skammtanir, sem fólust í tilskipunum ríkisstjórans fyrsta apríl síðastliðinn, þá slapp hinn risavaxni landbúnaðariðnaður nánast alveg. Þurrkurinn leiddi í ljós að Kaliforníumenn höfðu bruðlað með vatn í ótrúlega stórum stíl allt fram að þessu. Það var því borð fyrir báru og það hefur tekist að nýta vatnið betur en nokkru sinni fyrr. Hver dropi er að verða dýrmætur.

Olíuiðnaðurinn gagnrýndur
Það er ljóst af tilskipunum ríkisstjórans að stóru fyrirtækjunum er hlíft eftir megni við vatnsskortinum. Ekki einungis landbúnaðinum, líka hinum stóra risanum, olíuiðnaðinum sem er mjög drjúgur þar vestra og notar líka gríðarlega mikið af vatni við nýjar aðferðir sem eru notaðar til að kreista afganginn úr gömlum og næstum tómum olíulindum. Því samfara hefur magnast sú umræða vestan hafs að olíuiðnaðurinn í Kalíforníu sé sekur um gríðarlega mengun á því vatni sem hann dælir í sjóinn eftir notkun. Og þar með á hafinu. En blessað vatnið drífur fleira en náttúruna á frjósömum ökrum Miðdals í Kaliforníu. Vatnsorkuvirkjanir framleiða fjórðungi minna af rafmagni nú en fyrir fjórum árum vegna vatnsskorts. Hlutur þeirra í orkubúskap Kaliforníubúa hefur dregist saman úr átján prósentum í tólf á þeim tíma.

Hörð tíð framundan
Flestir sérfræðingar sem hafa fylgst með og rannsakað þurrkatíðina í Kaliforníu eru þeirrar skoðuna að erfiðir tímar séu framundan í nánustu framtíð. Það eru aðallega tveir þættir sem þar eru að verki; aukin fólksfjölgun og hækkandi meðalhiti. Hvorutveggja mun auka álag á vatnsbúskapinn sem nú þegar þolir ekki mikið meira. Það mun ekki duga að fara í styttri sturtu, dansa regndans, eða leggjast á bæn og biðja guð um rigningu. Nú þegar eru komnar fram mjög róttækar tillögur um skömmtun til landabúnaðar og iðnaðar í Kaliforníu, og sömuleiðis er verið að hraða löggjöf sem veitir stjórnvöldum meira vald yfir jarðvatninu. sem hingað til hefur verið dælt stjórnlaust á akrana í Miðdal. Það hafa líka komið fram hugmyndir um að leggja niður búskap á vissum svæðum í dalnum, og hún er orðinn hávær krafan um að olíuiðnaðurinn hætti að kreista olíu úr sandi frá gömlum lindum. En mesta krafan er á almenning. Tæplega fjörutíu milljónir Kaliforníubúa verða að spara vatn með öllum tiltækum ráðum. Það verður vel fylgst með þróun mála í Kaliforníu, hvort mönnum tekst að þrauka þennan erfiða þurrk , hvort mönnum tekst að finna lausnir sem hæfa þessum risavaxna vanda.

Enn sem komið er virðast þeir ekki vera einu sinni nálægt því.

 

Heimild: RÚV

 

 

Fleira áhugavert: